Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sýklalyfjanotkun dróst saman um 9%

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Sýklalyfjanotkun hjá mönnum hér á landi dróst saman um 9 prósent milli áranna 2018 og 2019. Hún minnkaði enn meir, eða um tæp 11 prósent hjá börnum yngri en fimm ára á sama tímabili.

Þetta kemur fram í ársskýrslu sóttvarnalæknis um sýklalyfjanotkun sem gefin var út í gær. Skýrslan hefði átt að koma út í fyrra en útgáfan tafðist vegna COVID-19 faraldursins. Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í morgun. 

Í skýrslunni segir að sýklalyfjanotkun hjá dýrum hér á landi sé enn ein sú minnsta í Evrópu. Hún minnkaði um 16 prósent á milli 2018 og 2019.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, skrifar inngang að skýrslunni og segir í honum að rekinn hafi verið mikill áróður fyrir skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum hér á landi og að lögð hafi verið áhersla á að fækka ávísunum almennt, sérstaklega hjá börnum. Tilgangurinn sé að minnka kostnað og draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Því sé ánægjulegt að sjá að notkunin hafi minnkað, sérstaklega hjá börnum. 

Á vef Embættis landlæknis segir einnig að þróunin sé ánægjuleg enda sé skynsamleg notkun sýklalyfja forsenda þess að takmarka útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.