Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Minnst 98 fórust í sprengingunum í Miðbaugs-Gíneu

09.03.2021 - 00:23
epa09062162 A general view of the aftermath of an explosion in Bata, Equatorial Guinea, 08 March 2021. According to President Teodoro Obiang Nguema huge damage occured when a dynamite storage facility exploded in the port city of Bata on 07 March 2021. According to the Equatorial Guinea health ministry there is an initial count of 20 dead and 420 injured people are being treated in hospitals.  EPA-EFE/JOSE LUIS ABECARA AGUESOMO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Staðfest var í kvöld að minnst 98 manns hafi týnt lífi í fjórum miklum sprengingum í herstöð í borginni Bata í Miðbaugs-Gíneu í gær og yfir 600 hafi slasast. Óttast er að fleiri hafi látist í sprengingunum og að fleiri eigi eftir að deyja af sárum sínum, en um 300 eru enn á sjúkrahúsi, mörg þeirra þungt haldin.

Bata er fjölmennasta borg Miðbaugs-Gíneu. Tugir bygginga, þar á meðal fjöldi íbúðarhúsa, gjöreyðilögðust í sprengingunum og forseti landsins, Teodoro Obiang Nguema, segir öll mannvirki í borginni hafa orðið fyrir miklu tjóni. Talið er fullvíst að ekki hafi verið um hryðjuverk að ræða, en yfirvöld halda því fram að dýnamítbirgðir í vopnageymslu hersins hafi sprungið fyrir vanrækslu sakir og kæruleysi.

Forsetinn, sem haldið hefur fast um valdataumana í landinu í rúmlega 40 ár, fullyrðir að herinn hafi vanrækt að ganga tryggilega frá dýnamítinu, sem hafi leitt til þess að það sprakk þegar eldur barst í vopnageymslurnar frá nærliggjandi ökrum, þar sem bændur hafa verið að brenna niður stubba síðustu maísuppskeru.

Heilbrigðisráðuneyti landsins sendi út ákall á Twitter, þar sem óskað var eftir sjálfboðaliðum úr heilbrigðisstéttum til að aðstoða starfsfólk stærstu sjúkrahúsanna í Bata. Jafnframt var sent út ákall til almennings um að gefa blóð, vegna hins mikla fjölda sem slasaðist.