Maður með þrjá hatta

Mynd: . / .

Maður með þrjá hatta

09.03.2021 - 07:30

Höfundar

„Þetta er annar af tveimur legsteinum sem sagt er að Myllu-Kobbi hafi gert fyrir sitt eigið leiði," segir Inga Katrín D. Magnúsdóttir, verkefnisstjóri hjá Byggðasafni Skagfirðinga. „Það er líklegt að hann hafi ekki verið sáttur við hann vegna þess að það hefur ekki verið pláss fyrir allan textannn framan á steininum og þvi þurfti hann að klára verkið aftan á honum, sem þótti kannski ekki nógu fínt."

Hvort Myllu-Kobbi náði loks að gera stein sem hann var sáttur við, er ekki ljóst, því ekki er vitað með vissu hvar hann er grafinn.

„Þetta var sérkennilegur en merkilegur maður. Eitt af því sem einkenndi hann var klæðaburðurinn. Hann á að hafa klæðst alltaf þremur buxum, mismikið bættum og stöguðum. Svo mörgum vestum og millipeysum og mussu utanyfir. Hans aðalsmerki voru hinsvegar hattarnir, þeir voru þrír; flókahattar, sem staflað var á kollinn á honum."

Myllu-Kobbi hét réttu nafni Jakob Jónsson en viðurnefnið hlaut hann af því að hann smíðaði vatnsmyllur vítt og breytt um Skagafjörð. Eftir hann liggja allmargir kvarnarsteinar og fleir smíðisgripir og járni, tré og steini.