Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lítið þarf til að kvikan komi upp á yfirborðið

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri jarðvár á Veðurstofu Íslands, segir að ekki þurfi mikið til að þess að kvika nái upp á yfirborðið því að hún sé á aðeins eins kílómetra dýpi við Fagradalsfjall.

Óróahviðan sem kom fram á jarðskjálftamælum á Reykjanesskaga snemma í morgun er merki um að kvikugangurinn milli Keilis og Fagradalsfjalls sé að stækka, sagði Kristín í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Ég held að við séum að læra að þessar óróahviður eru í tengslum við það þegar gangurinn er að stækka. Og það verður kannski ekkert svakalega mikil stækkun en þetta er svona hröð, kannski eitthvað sem gerist dálítið hratt, og þess vegna var svona mikill ákafi. Hún finnur einhvern veikleika, eða sem sagt gangurinn finnur einhvern veikleika og kvikan leitar eitthvað alveg örugglega og það brotnar heilmikið af bergi og það er það sem við erum að sjá. Það sem við vorum á ræða á vísindaráðsfundi er í rauninni að þessi nýju gögn benda til þess að kvikan sé aðeins að hækka, að hún sé að færast nær yfirborði og að það sé kannski kílómetri í hana.“

Það er mjög grunnt er það ekki?

„Jú, það þarf ekki mikla krafta til að brjóta ofan af þessu. Þannig að við búumst ekkert endilega við því að það verði einhverjir rosalega stórir skjálftar eða neitt slíkt.“

Já, við það að hún kæmi upp?

„Nei, einmitt.“