Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hópsmit og ekki líkur á tilslökunum 17. mars

09.03.2021 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þeir tveir sem greindust utan sóttkvíar í gær tengjast hinum þremur sem smitaðir eru af breska afbrigði kórónuveirunnar. Sóttvarnalæknir segir að þetta sé hópsmit en að fjórða bylgja faraldursins sé ekki hafin. Þá segir hann ólíklegt að slakað verði á takmörkunum í næstu viku.  

Allir fimm smituðu tengjast

Fjórir hafa nú greinst innanlands með kórónuveirusmit sem tengist manni sem kom að utan og greindist með breska afbrigði veirunnar á fimmtudaginn. Sá sem kom að utan framvísaði neikvæðu PCR vottorði við komuna til landsins og greindist neikvæður í fyrri skimun en svo jákvæður í þeirri síðari. Tveir sem búa í sama stigagangi smituðust af honum. Þessi þrjú eru með breska afbrigði kórónuveirunnar.

Í gær greindust svo tveir til viðbótar. Þeir tengjast öðrum þeirra sem greindist um helgina. Þórólfur Guðnason segir að þessir tveir hafi hins vegar ekki komið fram við smitrakningu sem hófst um helgina.

Vonast til að hægt verði að koma í veg fyrir fjórðu bylgju

En er þá fjórða bylgja faraldursins hafin?:

„Nei, ég held að það sé nú of snemmt að segja það en ef við færum að sjá mikið af fólki sem að við getum ekki tengt við önnur tilfelli þá væri það merki um að veiran væri komin víðar í samfélagið og við myndum hafa miklu meiri áhyggjur af því. Þannig að ég er nú að vonast til þess með þeim aðgerðum sem við erum að grípa til að þá muni okkar takast að stoppa þetta svona í fæðingu,“ segir Þórólfur. 

Hann segir að á þessari stundu sé ekki ástæða til að draga upp mjög dökka mynd. Í dag verður fjöldi fólks skimaður sem tengist þeim sem greindust. 
  
„Það má alveg kalla það hópsmit. Við getum rakið þessi smit hver uppruninn er og þessir fimm sem eru komnir núna tengjast allir.“

Minni líkur á að slakað verði á

Ætlarðu að leggja til hertar reglur?

„Það er ekkert alveg ákveðið ennþá en vissulega setur þetta strik í reikninginn. Það sýnir bara hvað þetta getur verið  viðkvæmt ástand og ég er bara svona að hugsa hvað væri skynsamlegt að gera. Og svo náttúrulega það sem gerist núna á næstunni mun náttúrulega ráða miklu um það hvaða tillögur ég kem með. Ég held alla vega að það séu kannski minni líkur núna en áður að það verði eitthvað slakað frekar á.“ 

Annar þeirra sem greindist í gær vinnur í næturvinnu við áfyllingar í Hagkaup á Garðatorgi og var Hagkaup fyrst til að tilkynna um smitið. Sá var í nær engum samskiptum við viðskiptavini. Þegar er búið að sótthreinsa verslunina og fara allir starfsmenn sem unnu með þessum í skimun í dag.