Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Góð tímasetning til að endurskoða tilgang prófanna

09.03.2021 - 10:28
Mynd: RÚV / RÚV
Samræmd próf hafa ekki breyst í takt við breyttar áherslur í núverandi aðalnámskrá sem þó er frá árinu 2011, að mati Álfhildar Leifsdóttur, kennara á Sauðárkróki. Því sé góð tímasetning nú, í ljósi tæknilegra vandræða í gær, til að endurskoða tilgang þeirra.

Þúsundir níundu bekkinga lentu í vandræðum í gær við að taka samræmt próf í íslensku. „Það er líka hollt að endurskoða og þetta er sennilega bara góður tímapunktur til að endurskoða fyrirlögn og tilgang samræmdra prófa þar sem að fyrirlögn prófanna í gær, eins og við vitum, hún var algjörlega ómarktæk og aðstæðurnar sem að ungmennin okkar voru sett í voru ekki góðar,“ sagði Álfhildur í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Óþægileg reynsla margra nemenda 

Hún hefur rætt við kennara víða um land og segja þeir að vanlíðan barna í prófinu í gær hafi verið mikil. Kerfið hafi hent þeim út úr prófinu og þau hafi ekkert vitað um það hvort það sem þau höfðu þegar skrifað væri þar enn. Slíkt sé mjög óþægilegt í prófi sem þessu. Aðallega hafi verið að prófa seiglu og færni á „restart-takkanum“ í prófinu í gær. 

Segir prófin að litlu leyti prófa það sem kennt er

Álfhildur segir mikilvægt að mat á skólastarfi sé í takti við það sem kennurum sé uppálagt að kenna samkvæmt aðalnámskrá. Prófin mæli að litlu leyti það sem kennt sé í skólum nú til dags. „Það sem að hefur mögulega gerst er að núverandi aðalnámskrá, sem er frá 2011, hún leggur áherslu á hæfni og grunnþætti menntunar með miklu víðari sýn á hlutverk skólans og kennarans heldur en aðalnámskráin sem var hérna áður fyrr. Þannig að það eru miklu meiri áherslur á annað en páfagaukalærdóm, sem betur fer.“ 

Álfhildur segir mikilvægt að endurskoða fyrirlögn prófanna og meta hvort þau séu úrelt. Hún bendir á að starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis hafi skilað skýrslu á síðasta ári þar sem lagt var til að Menntamálastofnun myndi hætta með prófin í núverandi mynd og tryggja frekar að til séu fjölbreytt og minni mælitæki sem hægt sé að nýta í ákveðnum námsþáttum en ekki aðeins í íslensku, stærðfræði og ensku. „Því að krakkarnir okkar læra svo margt fleira en það.“ Þá væri áherslan á stutt rafræn próf og verkefni og að skólarnir myndu ákveða hvenær þau eru lögð fyrir.