Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Engin smit greind eftir tónleika í Hörpu

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Engin COVID-smit hafa greinst meðal starfsfólks og tónleikagesta í Eldborg í Hörpu síðasta föstudag. Í ljós kom um helgina að manneskja sem smituð var af bresku afbrigði veirunnar hafði sótt tónleika með píanóleikaranum Víkingi Heiðari á föstudag.

Greint er frá þessari niðurstöðu á vef Hörpu. ,,Harpa mun halda áfram að vanda alla framkvæmd viðburða í samræmi við gildandi sóttvarnarreglur og treystir sínum góðu gestum til að gera slíkt hið sama hvað varðar persónubundnar sóttvarnir,“ er haft eftir Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, í tilkynningunni. 

Áætlað er að kalla sama hóp í seinni skimun á fimmtudag og fá allir gestir boð um það. „Það er því mikilvægt að halda áfram að fara varlega, sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum og að fólk haldi sig skilyrðislaust heima fyrir ef einkenna verður vart,“ segir á vef Hörpu.