Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Breskir miðlar undirlagðir af Harry og Meghan viðtalinu

Mynd: Daily Mirror / Daily Mirror
Breskir miðlar eru undirlagðir af umfjöllun um viðtal bandarísku sjónvarpskonunnar Ophrah Winfrey við Harry Bretaprins og eiginkonu hans Meghan Markle, hertogans og hertogaynjunnar af Sussex. Daily Mirror segir með stríðsfyrirsagnaletri að konungsfjölskyldan horfist í augu við verstu krísu í 85 ár og vísar þar til þess er Játvarður áttundi sagði af sér konungdómi 1936 til að giftast tvífráskilinni bandarískri konu.

Hirðin í uppnámi vegna ásakan um rasisma

The Times segir hirðina í uppnámi vegna ásakana um rasisma og The Sun krefst þess að fá að vita hver sé rasistinn í konungsfjölskyldunni, Who is the Royal Racist, spyr blaðið í fyrirsögn. Þar er vísað til þess að Meghan Markle sagði að einhver eða einhverjir í konungsfjölskyldunni hefðu lýst áhyggjum af litarhætti sonar þeirra meðan hann var í móðurkviði. Móðir hertogaynjunnar er svört.  

Engin viðbrögð frá drottningu

Engin viðbrögð hafa komið frá Elísabetu drottningu eða hirðinni við viðtalinu, en The Times segir að drottningin hafi ekki viljað senda út tilkynningu til að reyna að bera klæði á vopnin. Hún hafi viljað ígrunda viðbrögðin betur, segir blaðið. 

Mikið áhorf á viðtalið

Rúmlega 11 milljónir manna horfðu á viðtalið þegar það var sýnt í gærkvöld í Bretlandi og í skyndikönnun YouGov, sem Sky News birtir segist nærri helmingur aðspurðra telja að viðtalið hafi verið óviðeigandi. 

Alvarlegt fyrir konungdæmið

Ásakanir um rasisma eru alvarlegar fyrir konungdæmið, yngra fólk, sem ekki er eins konunghollt og eldri kynslóðir, lítur þær alvarlegum augum. Sumir fréttaskýrendur benda einnig á að grunur um kynþáttahyggju leggist illa í þær mörg hundruð milljónir sem búa í löndum breska samveldisins, en fæst af því fólki er hvítt á hörund.

Blaðamenn taka ekki gagnrýni til sín

Hertogahjónin voru einnig afar hörð í gagnrýni sinni á bresku pressuna en hvergi er að sjá að blaðamenn taki þá gagnrýni til sín.

Misstum við af einhverju spyr The Star

Tvö blöð í Bretlandi skera sig úr og birta ekki stríðsfyrirsagnir um málið, Financial Times og The Star, sem segir á forsíðu, sjónvarpið okkar bilaði í gærkvöld, misstum við af einhverju?