Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

2.700 skjálftar á mánudag en engir stórir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um 2.700 skjálftar mældust á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga í gær, mánudag, frá miðnætti til miðnættis, litlu færri en dagana þar á undan. Helsti munurinn er sá að engir meiriháttar skjálftar urðu á svæðinu í gær. Einungis átta skjálftar mældust 3,0 eða stærri, þeir stærstu 3,3, og enginn skjálfti sló í fjóra eða þaðan af meira. Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ekkert óvenjulegt að sjá þar syðra um þessar mundir og engin merki um óróa.

En þótt mánudagurinn hafi virst með rólegasta móti þýðir það ekki að skjálftahrinan mikla, sem hófst 24. febrúar, sé í rénun, eins og ráða má af þeim mikla fjölda smáskjálfta sem mældist í gær. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúrvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, býst við að jarðskjálftavirknin haldi áfram en verði kaflaskipt.