Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Yfir 1.400 skimaðir í dag

08.03.2021 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Yfir 1.400 eru væntanlegir í skimun hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðinu í dag. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, greindi frá þessu í hádegisfréttum. „Það hafa rúmlega 700 manns farið í gegn hjá okkur í morgun og við eigum þá eftir annað eins eftir hádegi. Það er opið til klukkan 16 hjá okkur.“

Ragnheiður segir að Landspítalinn sjái um að skima sitt starfsfólk en heilsugæslan skimi aðra. 

Ekkert kórónuveirusmit greindist innanlands í gær, en 269 sýni voru tekin. Ragnheiður segir að færri séu jafnan skimaðir um helgar. „Um helgar þá er frekar rólegt og kannski viðbragð ekki komið í eins og það er komið í dag.“

Ragnheiður segir aukningu í skimunum ekki hafa áhrif á bólusetningar sem verði á morgun. 

Enginn þeirra sem sendur var í sýnatöku í gær vegna tveggja tengdra innanlandssmita reyndist smitaður af kórónuveirunni. Búist er við að á morgun verði komin skýrari mynd á hópsmitin sem tengjast Landspítalanum og Hörpu.

Tveir greindust með veiruna á landamærunum, en annar þeirra bíður mótefnamælingar.