Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vandræði í morgun við rafrænt samræmt íslenskupróf

08.03.2021 - 11:45
Mynd með færslu
Samræmd próf. Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Hluti þeirra níundabekkjarnemenda sem áttu að þreyta rafrænt samræmt íslenskupróf í morgun lenti í vandræðum með að tengjast prófakerfinu eða missti ítrekað samband við það. Menntamálastofnun vinnur nú að greiningu vandans og metur í kjölfarið til hvaða bragðs verður tekið varðandi framhald samræmdra prófa.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir í samtali við fréttastofu að tölur nú sýni að um 2.700 nemendur eða um 60% hafi getað lokið prófinu í dag. Þó eigi eftir að staðfesta þann fjölda.

Þær upplýsingar muni liggja fyrir síðar í dag og þá verði teknar ákvarðanir varðandi þau próf sem fyrirhuguð eru í vikunni, stærðfræði á morgun og ensku á miðvikudag. 

Í tilkynningu sem skólastjórnendum barst frá Menntamálastofnun skömmu fyrir klukkan níu segir að mikið álag hafi verið á prófakerfinu enda margir að skrá sig inn samtímis.

Ábending barst fréttastofu um að nemendur í Hagaskóla ættu í vandræðum með að tengjast prófinu. Ekki tókst að ná tali af skólastjórnendum sem allir voru sagðir önnum kafnir við að leysa vandann við próftökuna. 

Menntamálastofnun biðlaði til skóla að hægja á skráningu og að gefa þeim góðan tíma til að hefja próftöku. Samkvæmt viðbragðsáætlun stofununarinnar býðst skólum að gefa nemendum tækifæri til að þreyta prófin á varaprófdegi. 

Arnór segir að beiðnir um að nýta varaprófdaginn hafi borist frá  þrjátíu skólum af þeim 150 þar sem þreyta átti próf í morgun. 

Í tilkynningu segir að stofnunin sé nú í sambandi við fyrirtækið sem þjónustar kerfið til þess að rýna í ástæður vandans og leysa hann. Þar segir einnig að nemendur, foreldrar, skólastjórnendur og fjölmiðlar verði upplýstir um stöðu mála eftir því sem fram vindur.