Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta gat ekki gerst á verri stað“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Margra klukkustunda rafmagnsleysi í Grindavík á föstudaginn er ekki rakið til skjálftavirkni. Forstjóri HS veitna segir að þetta hefði ekki getað gerst á verri stað. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, segir að reynslan sem varð til í Vestmannaeyjagosinu nýtist vel í þeim jarðhræringum sem nú eru á Reykjanesskaga.

Fulltrúar bæjarstjórnarinnar í Grindavík áttu í morgun fund með fulltrúum HS orku vegna rafmagnsleysisins. Netsamband féll niður í hluta bæjarins og heimasímar voru án sambands meðan það varði.

Júlíus Jón Jónsson forstjóri HS veitna segir að rafmagnið hafi verið svona lengi úti því að fyrst hefði verið talið að það mætti rekja til Svartsengis. Viðvörunarbúnaður hafi ekki virkað sem skyldi og þegar sé byrjað að skipta honum út. Atvikið hafi ekki tengst jarðhræringunum.

„Ég held að það sé alveg hægt að fullyrða það - það hefur ekkert með það að gera. Það verður bilun í spennistöð í Grindavík sem hefði átt, ef búnaður hefði virkað rétt, að hafa áhrif á í mesta lagi hálfan bæinn. Við gerum allt til að svona geti hvergi gerst og helst ekki þarna. Það er ekki á það bætandi sem gengur á hjá þeim. Þetta gat ekki  gerst á verri stað á landinu,“ segir Júlíus.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, segir að hefði hættuástand skapast, hefði verið hægt að senda íbúum sms-skilaboð. Farsímakerfið hafi verið virkt allan tímann og á því hafi verið nægt varaafl.

„Ef við hefðum þurft að grípa til rýminga, hefðum við notað farsímakerfið. Við hefðum síðan notað tæki viðbragðsaðila til að keyra um með sírenur og annað slíkt, það er hluti af því sem menn eru búnir að undirbúa ef þarf að vekja fólk og fara um. Þar nýtum við reynslu frá Vestmannaeyjum '73.“

Neyðarlínan sendir skilaboð í sms-útsendingarkerfi Almannavarna. Víðir segir að kerfið sé í stöðugri endurskoðun. „Það býður upp á þann möguleika núna að við erum búin að afmarka svæðið í kringum umbrotasvæðið á Reykjanesi. Þannig að ef þú ferð inn fyrir það svæði, þá færðu skilaboð í símann um að þú sért að fara inn á svæði sem er sérstaklega hættulegt vegna umbrota. Síðan getum við líka valið ákveðna farsímasenda og sent á öll símtæki sem eru þar. Við sendum stutta lýsingu með vefslóð sem þú smellir á ferð á og þar eru leiðbeiningar á íslensku, ensku og pólsku,“ segir Víðir.