
Sex konur vilja skaðabætur frá Krabbameinsfélaginu
Yfir tíu málum hefur verið vísað til Embættis landlæknis til skoðunar.
Í fyrra kom í ljós að starfsmaður Krabbameinsfélagsins hafði gert mistök við greiningu leghálssýna og í kjölfarið voru sýni 6.000 kvenna endurskoðuð. Fréttastofa greindi frá því í nóvember að tryggingafélag Krabbameinsfélagsins hefði viðurkennt bótaskyldu í máli einnar konu vegna rangrar greiningar.
Sævar Þór Jónsson, lögmaður kvennanna, segir að mál um 50 kvenna vegna þessa hafi komið inn á hans borð og að um einn fimmti þeirra séu nú til skoðunar hjá embætti landlæknis.
„Þau mál sem snúa að Krabbameinsfélaginu í heildina í dag eru um það bil 11. Það eru 2-3 mál sem eiga eftir að fara til landlæknis þannig að þau gætu verið á milli 11 og 13. Í flestum þessara mála er gerð krafa um greiðslu skaðabóta,“ segir Sævar.
Hann segir að upphæð þeirra skaðabóta sem verður krafist sé mishá. Þrjár kvennanna séu látnar, aðrar mikið veikar. „Þannig að það tekur svolítið mið af því og hverjar líkur eru á bata. Eða ekki bata. Í þessum alvarlegu tilvikum þá er það í einhverjum tugum milljóna,“ segir Sævar.