Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sérstakur ferðatryggingasjóður í bígerð

Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Með nýju frumvarpi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er lagt til að sett verði á laggirnar nýtt tryggingakerfi fyrir pakkaferðir sem á að leysa gildandi kerfi af hólmi. Frumvarpið er nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Gert er ráð fyrir að með því að bæta við kafla í lög um pakkaferðir, verði stofnaður sérstakur Ferðatryggingasjóður 1. júlí næstkomandi, sem væri sameiginlegur tryggingasjóður fyrirtækja sem selja pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Þau fyrirtæki eru lögum samkvæmt tryggingaskyld og verður gert skylt að hafa aðild að sjóðnum og greiða iðgjöld. Í umfjöllun á samráðsgáttinni segir að tryggingafé ferðaskrifstofa gæti lækkað umtalsvert með þessari tilhögun ásamt því sem neytendavernd ykist mjög.

Tryggt verði að allar kröfur ferðamanna fáist að fullu greiddar verði ferðaskrifstofur ófærar um greiðslur eða ef þær verða gjaldþrota. Ferðamálastofu er ætlað að sýsla með sjóðinn en höfð var hliðsjón af sambærilegum sjóðum í Danmörku og Noregi.