Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Samræmdum könnunarprófum frestað fram í næstu viku

08.03.2021 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir að taka þurfi af allan vafa um að rafrænt prófakerfi við samræmd próf standist álag. Því hafi verið tekin sú ákvörðun að fresta prófum í stærðfræði og ensku sem átti að halda á morgun og miðvikudag.

„Við ákváðum því að fresta þeim fram á næsta mánudag í samráði við menntamálaráðuneytið. Við opnum fyrir nýjan prófaglugga á mánudaginn 14. mars og munum hafa hann opinn í tvær vikur, til 26. mars.“

Tæknileg vandkvæði komu upp þegar þúsundir níundubekkinga hugðust þreyta íslenskupróf í morgun. Samkvæmt fyrstu greiningu hafa um 3.500 nemendur af um 4.200 lokið prófinu en ljóst er að hluti nemenda tók prófið við ófullnægjandi aðstæður.

„Menntamálastofnun harmar þau vandamál sem komu upp við fyrirlögn þeirra. Eru nemendur og starfsfólk skóla beðið afsökunar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.

Arnór segir skóla geta valið hvenær prófin verða lögð fyrir og nemendur sem lentu í vandræðum með íslenskuprófið í morgun geti tekið það á þeim prófdegi sem skólinn ákveður.

Arnór segist vonast til að nú sjái fyrir endann á tæknilegum vandkvæðum. Menntamálastofnun vilji fullvissa sig um að kerfið virki rétt. 

„Með því að hafa lengri prófaglugga dreifist álagið á kerfið, þannig að viljum vera nokkuð viss um að þetta gangi vel fyrir sig þegar prófin fara af stað aftur.“

Þannig er búist við að leggja prófin fyrir með viðunandi hætti og skapa skólum svigrúm til að ljúka fyrirlögn þeirra án þess að mikil röskun verði á skólastarfi.

Fréttin var uppfærð klukkan 17:10.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV