Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ölvað fólk fær ekki að skíða í Hlíðarfjalli

08.03.2021 - 12:03
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Anton Brink - RÚV
Forstöðumaður í Hlíðarfjalli segir að engin vandamál hafi komið upp í tenglum við áfengissölu sem hófst um helgina. Vel verði fylgst með gestum sem neyta áfengis og ölvuðum meinað að skíða.

Áfengi áberandi á skíðasvæðum erlendis

Sala og neysla á áfengi hefur ekki verið áberandi á skíðasvæðum landsins hingað til en slíkt er alvanalegt á skíðasvæðum erlendis. Veitingastaðurinn í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar greindi frá því á Facebook fyrir helgi að heimild hefði fengist til að selja áfenga drykki á skíðasvæðinu, sem hefur ekki verið gert áður í fjallinu.

„Einn bjór eða kakó með rommi“

„Mörg okkar þekkja það erlendis frá að fá sér einn bjór eða kakó með rommi á góðum skíðadögum. Nú ætlum við að prófa að bjóða upp á þetta hér á Akureyri. Vonandi hafið þið þolinmæði með okkur á meðan við prófum okkur áfram – en umfram allt þá munum við leggja áherslu á öryggi og að öllum líði vel í fjallinu,“ segir í tilkynningu frá Facebook-síðu veitingastaðarins í Hlíðarfjalli.

Áfengisneysla í fjallinu fyrr í vetur

Þrátt fyrir það hefur borið á áfengisneyslu við skíðaiðkun og um miðjan febrúar tók lögregla upp eftirlit eftir ábendingar um áfengisnotkun í fjallinu var ástand 300 ökumanna kannað. Enginn þeirra reyndist vera undir áhrifum.

Sjá einnig: Eftirlit í Hlíðarfjalli eftir ábendingar um drykkjuskap

Fyrsta helgina áfallalaus

Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli segir að salan sé á vegum veitingastaðarins en það sé hins vegar þeirra að gæta öryggis gesta. Hann segir að þessi fyrsta helgi hafi gengið áfallalaust. Vel hafi verið fylgst með ástandi fólks og enginn verið sjáanlega ölvaður á svæðinu. Komi til þess að ölvað fólk ætli sér á skíði verði því umsvifalaust vikið af svæðinu. Hann segist vongóður um að áfengissalan verði ekki vandamál, mikilvægt sé að fólk sé ábyrgt í hegðun.