Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lítið um að farið væri fram á breytingu flugmiða

08.03.2021 - 12:58
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fyrsta áætlunarflug Boeing 737 Max þotu Icelandair eftir afléttingu kyrrsetningar var farið til Kaupmannahafnar í morgun. Þotan Mývatn TF-ICN lenti heilu og höldnu klukkan 11:38 að staðartíma á Kastrup-flugvelli eftir tæpra þriggja stunda flug.

Að sögn Ásdísar Ýrar Pétursdóttur upplýsingafulltrúa Icelandair gekk allt að óskum en þessi þota hefur aldrei verið notuð við farþegaflug áður. 

Mjög lítið var um að farið væri fram á að fá flugmiðum breytt en fyrst um sinn verður það heimilt þeim farþegum sem svo kjósa. Farþegar voru 64 á leiðinni til Kaupmannahafnar en 70 verða í vélinni á leiðinni heim til Íslands. 

Flugöryggisstofnun Evrópu heimilaði notkun MAX-vélanna í lok janúar og Loftferðaeftirlit Bandaríkjanna heimilaði farþegaflug um miðjan nóvember síðastliðinn.

MAX-þoturnar voru kyrrsettar í mars 2019 eftir að bilun í hugbúnaði olli tveimur mannskæðum slysum. Allt síðan þá hefur verið unnið að lagfæringum á tölvubúnaði vélanna og öryggisbúnaður þeirra uppfærður í samræmi við kröfur flugmálayfirvalda.