Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kvikan er á kílómetra dýpi

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Enn eru líkur á gosi á Reykjanesskaga og kvika situr nú á um eins kílómetra dýpi í kvikugangi á milli Fagradalsfjalls og Keilis sem er sá staður þar sem líklegast er talið að gos geti brotist út. Haldi kvikugangurinn áfram að stækka má eiga von á sambærilegum skjálftahrinum og urðu um helgina. 

Kvika situr nú á um eins kílómetra dýpi í kvikugangi á milli Fagradalsfjalls og Keilis sem er sá staður þar sem líklegast er talið að gos geti brotist út á Reykjanesskaga. Haldi kvikugangurinn áfram að stækka má eiga von á sambærilegum skjálftahrinum og urðu um helgina. Núna er rólegur kafli í skjálftavirkninni, en erfitt er að segja hvað tekur við.  

Engar vísbendingar eru um kvikuhreyfingar utan þessa svæðis, að sögn Kristínar Jónsdóttur hópstjóra Náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands. Nokkrar sviðsmyndir varðandi þróun jarðhræringanna á Reykjanesskaga voru dregnar upp á fundi Vísindaráðs sem lauk nú síðdegis, en þar var farið yfir nýjar gervihnattamyndir sem bárust í gær og þær bornar saman við GPS mælingar, skjálftagögn og aðrar mælingar.  

„Nýjustu gögnin benda til þess að það hafi kannski aðeins hægt á þessum vexti gangsins en á hinn bóginn sjáum við að kvikan, hún er komin aðeins grynnra heldur en hún var, hún er á um eins kílómetra dýpi núna,“ segir Kristín.

Kristín segir að gögn sýni að harðir skjálftar við Grindavík séu ekki afleiðing kvikusöfnunar á því svæði, eins og talið var. Hún segir að líkur á gosi hafi lítið breyst. 

„Líklegasta svæðið fyrir eldgos er þá þarna í Fagradalsfjallinu. Og í suðurenda gangsins, frekar en í norðurenda hans - nálægt Keili.“

Hvert myndi slíkt hraun hugsanlega renna? „Það mun byrja á því að renna um þetta svæði og það eru margir margir kílómetrar í byggð frá þessu svæði sem við erum að skoða. Við munum birta nákvæmari myndir af því eftir næsta Vísindaráðsfund.“

Kristín segir að enn séu talsverðar líkur á stórum skjálfta við Brennisteinsfjöll.  „Við erum akkúrat núna í rólegum kafla en svo veit maður ekkert hvað tekur við.“
Gæti það verið lognið á undan storminum? „Hugsanlega. En það er bara mjög erfitt að spá í.“