Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Harry óttaðist að sagan myndi endurtaka sig

08.03.2021 - 13:44
epa06687404 Britain's Prince Harry and Meghan Markle attend the memorial service to commemorate the 25th anniversary of the murder of Stephen Lawrence in St Martins in the Field, central London, Britain, 23 April 2018. Stephen was stabbed to death by a group of six white youths in an unprovoked racist attack as he waited at a bus stop on Well Hall Road in Eltham, London, Britain on 22 April 1993. Prince Harry will read a message of support on behalf of The Prince of Wales during the service.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA
Skortur á stuðningi og skilningi, bæði innan konungsfjölskyldunnar og hjá breskum fjölmiðlum, voru helstu ástæður þess að hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan, ákváðu að láta af öllum konunglegum skyldum sínum og flytja til útlanda.

Þetta kom fram í viðtali hjónanna við Oprah Winfrey sem sýnt var á bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS í gærkvöld.

Viðtalsins hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, enda það fyrsta sem þau veita á því ári sem liðið er síðan þau hófu nýtt líf fjarri konungsfjölskyldunni. Þau segja að óvægin umfjöllun bresku slúðurblaðanna, lituð kynþáttahatri, hafi reynst þeim erfið. Harry segir að hann hafi óttast að sagan myndi endurtaka sig og átti þar við örlög móður sinnar, Díönu, sem lést í bílslysi árið 1997, þegar ljósmyndarar eltu hana. „Ég bað um frið frá slúðurblöðunum einu sinni sem unnusti, einu sinni sem eiginmaður og aftur sem faðir,“ sagði Harry í viðtalinu.

Britain's Princess Diana (C) meets children during her visit to the Hindu temple Neasden in London, Britain, 06 June 1997. The 20th anniversary of Princess Diana's death will be marked on 31 August 2017. Diana Spencer, ex-wife of Prince Charles,
 Mynd: EPA

Hjónin búa í Kaliforníu í Bandaríkjunum og sagði Harry að þau hafi ákveðið að flytja því þau hafi ekki fengið þann stuðning og skilning sem þau þurftu, hvorki frá konungsfjölskyldunni né fjölmiðlum.

Meghan greindi frá því í viðtalinu að hún hafi einangrast og liðið mjög illa innan konungsfjölskyldunnar. Henni hafi þótt erfitt að viðurkenna fyrir eiginmanni sínum hve mikil vanlíðanin var. Hún hafi ekki viljað lifa lengur en óttaðist að ef hún myndi ekki segja honum frá, myndi hún láta verða af hugsunum um að skaða sjálfa sig.

Hún hafi leitað til krúnunnar og óskað eftir sálrænni hjálp en hafi fengið þau svör að það væri ekki hægt og að slíkt yrði slæmt fyrir stofnunina.

Hertogahjónin eiga ungan son og eiga von á öðru barni í sumar. Meghan lýsti því í viðtalinu að þegar á leið meðgönguna með son þeirra hafi þeim verið tilkynnt að hann fengi ekki prinsatitil né öryggisgæslu. Hún telur það vera vegna kynþáttar þeirra en hún er af afrískum og bandarískum uppruna. Á meðgöngunni hafi einn úr fjölskyldunni rætt það við Harry hversu dökkur á hörund sonur þeirra yrði og hvað afleiðingar það myndi hafa. 

Ekki hafa borist viðbrögð frá Buchkingham-höll eftir viðtalið. Bresku blöðin hafa vart fjallað um annað í morgun. Í The Daily Telegraph segir að hjónin hafi, með viðtalinu, varpað nógu stórri sprengu til að sökkva heilli flotasveit, sumir óttist að þau hafi valdið konungsveldinu sama skaða.