Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Enn gæti komið stærri skjálfti við Brennisteinsfjöll

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Sú sviðsmynd að riðið geti yfir stór skjálfti, sem á upptök sín við Brennisteinsfjöll, hefur ekki verið tekin af dagskrá, að sögn Kristínar Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar Veðurstofu Íslands. „Það er enn hætta á stærri skjálfta á því svæði. Við verðum bara að gera ráð fyrir því að þetta verði langhlaup og að virknin sé dálítið kaflaskipt og við erum kannski akkúrat núna í svona rólegum kafla en við verðum bara að gera ráð fyrir öllu, að svo stöddu,“ sagði hún í hádegisfréttum.

Vísindaráð kemur saman núna klukkan eitt til að fara yfir ýmis gögn, þeirra á meðal GPS-gögn og gervihnattamyndir sem teknar voru í gær. Kristín segir að samkvæmt því sem lesið hafi verið úr myndunum er að kvikugangurinn sé enn á sama stað og hafi vaxið lítillega til suðvesturs. Hann hafi ekki færst mikið, um nokkur hundruð metra, en að þetta valdi mikilli skjálftavirkni. Hrinan sé enn í gangi.

Kvikugangurinn er enn að mestu í láréttri stöðu en Kristín segir að það séu vísbendingar um að hann sé örlítið á leið upp í lárétta stöðu. Að loknum fundi Vísindaráðs á eftir verður send út yfirlýsing um stöðu mála, að sögn Kristínar.

Talsvert hefur dregið úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga. Frá upphafi hrinunnar hafa mælst um 30.000 skjálftar, en færri skjálftar hafa orðið þar undanfarinn sólarhring en dagana á undan.

Frá miðnætti hafa mælst rúmlega 1.000 skjálftar, þar af fjórir stærri en þrír. Sá stærsti var 3,3 og varð um klukkan hálfeitt í nótt. Þetta eru talsvert færri skjálftar en í gær, þegar hátt í 4.000 skjálftar mældust á sama tímabili.