Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ekki tímabært að tala um hópsmit

08.03.2021 - 12:50
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segir að vel hafi gengið að rekja smitin sem komu upp um helgina. Ekki sé tímabært að tala um hópsmit. Niðurstöður úr sýnatökum dagsins leiði frekari útbreiðslu í ljós. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn segir að fólk hafi eðlilega slakað á persónulegum sóttvörnum undanfarið, en nú sé mál að herða sig.

Þórólfur segir að smitrakningu sé lokið í tengslum við smit helgarinnar. Það hafi gengið vel að ná utan um þau. Það hafi hjálpað til að skráning í Hörpu hafi verið nákvæm. Raðgreining liggur fyrir hjá tveimur af þrem smitum, og voru þessir tveir með breska afbrigði veirunnar. Beðið er niðurstöðu úr þriðja sýninu. Í dag verða tekin sýni úr gestum á tónleikum í Hörpu sem ekki voru í sama hólfi og sá sem greindist um helgina. 

„Það var mjög ánægjulegt að sjá niðurstöðurnar í gær og lofandi að fólk sem hafði verið í náum tengslum við þetta fólk var neikvætt. Það er ekki þar öll sagan sögð því fyrsta próf svona snemma í ferlinu getur reynstneikvætt en átt eftir að verða jákvætt. Dæmin hafa sýnt það, svo fólk þarf áfram að gæta vel að sér og passa sig vel og vera tilbúið að mæta aftur í próf ef það finnur fyrir einkennum,“ segir Þórólfur. 

Hann segir að það sé ekki hægt að tala um að hópsmit sé komið upp en staðan eigi eftir að skýrast á næstu dögum. Staðan komi honum ekki á óvart.

„Auðvitað var maður að vonast til að hún myndi ekki koma upp, en ég hef alltaf talað um að það sem við erum að gera er að lágmarka áhættuna sem þýðir það að á einhverjum tímapunkti, þá gerist eitthvað, og við vitum að það þarf ekki nema eitt smit til setja af stað svona skriðu og faraldur. Þetta getur gerst og kemur ekki sérstaklega á óvart og þetta voru ákveðin vonbrigði að þetta skyldi gerast,“ segir Þórólfur.

Fer allt í botn ef við gerum ekki neitt

Þórólfur segir að á meðan að hjarðónæmi hefur ekki verið náð sé óhjákvæmilegt að ný bylgja geti hafist. Þeir sem hafa myndað mótefni og hafa fengið bólusetningu séu um 10 prósent þjóðarinnar.

„Ef við gerum ekki neitt þá fer þetta allt í botn aftur,“ segir Þórólfur.

Hafa slakað fullmikið á sóttvörnum

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að fregnir hafi borist af því um helgina að fólk sé farið að slaka um of á persónulegum sóttvörnum.

„Það sem við höfum verið að fá upplýsingar um núna um helgina varðandi hópamyndanir eins og í kringum bari og þar hafi menn verið aðeins að gleyma sér. Rekstraraðilar gera sitt besta að fá fólk til að fylgja þessum leiðbeiningum sem eru, en það er ljóst að menn eru farnir að slaka verulega á,“ segir Víðir.

Hann segir að það sé eðlilegt í ljósi þess hversu fá smit hafa verið í landinu undanfarnar vikur. Það sé samspil á milli þess að almenningur sé að slaka á og eins séu vankantar á því að til að mynda sótthreinsispritt sé aðgengilegt hjá rekstraraðilum fyrir fólk. Enn eru þau tilmæli í gildi að þeir sem finna fyrir einkennum, haldi sig heima og fari ekki innan um annað fólk og fari í sýnatöku þrátt fyrir að smit séu sárafá.

„Það er ástæða þess að við höldum þessu er að það er ekkert mál að komast í sýnatöku. Ef það væri einhver bið að komast í sýnatöku myndum við kannski endurhugsa þetta, en þar sem það er þannig að ef þú finnur fyrir einkennum kemstu jafnvel í sýnatök samdægurs, þá er þetta ekki íþyngjandi,“ segir Víðir. 

Viðtal Ingvars Þórs Björnssonar fréttamanns við Þórólf og Víði má sjá í heild sinni hér að ofan.