Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

COVID-aðgerðir stjórnvalda skapa aðallega karlastörf

Mynd: Kristinn Ingvarsson / Kristinn Ingvarsson
Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 skapar fyrst og fremst störf fyrir karla. Allt að 90% starfanna sem urðu til eru hefðbundin karlastörf. Þetta segir Finnborg Salome Steinþórsdóttir, kynjafræðingur hjá félaginu Femínísk fjármál. Hún segir að fín greiningarvinna sé unnin í ráðuneytunum en það vanti pólitískar ákvarðanir.

Félagið Femínísk fjármál

Stjórnvöld hafa frá 2009 skuldbundið sig til að vinna að innleiðingu kynjaðrar fjárlagagerðar. Það þýðir að þegar ákvarðanir eru teknar á að huga að því hvaða áhrif þær hafa á stöðu kynjanna.  „Það sem við, svona sérfræðingar í þessum málaflokki, sáum að þetta var ekki að ná tilætluðum árangri í ríkisfjármálum. Þannig að við sáum að það var verið að vinna jafnréttismat á alls konar hlutum en alltaf eftir á.“   

Feminísk fjármál, félag áhugafólks og sérfræðinga um kynjuð fjármál, var stofnað 2018. Markmið félagsins er að veita stjórnvöldum aðhald og efla þekkingu á kynjuðum fjármálum. Í félaginu starfa kynjafræðingar, hagfræðingar, félagsfræðingar og áhugafólk um kynjuð fjármál. Vinna félagsins hefur snúist um að skrifa umsagnir við fjármálaáætlanir, frumvörp til fjárlaga og einstök lagafrumvörp.

Finnborg starfar við rannsóknir á kynjuðum fjármálum í Háskóla Íslands og er með doktorspróf í kynjafræði. 
Spurningin snýst um hvernig hægt sé að ýta jafnrétti áfram því það gerist ekki af sjálfu sér. „Það er ekki nóg að setja lög eða setja kynjuð fjármál í lögin það þarf að vinna eftir því.“  Lög og fjármál hafi yfirbragð kynhlutleysis og virki eins og það þurfi ekki að ávarpa kyn eða aðra félagslega þætti. En hvernig fjármunum er stýrt í samfélaginu endurspegli hvaða störf eru talin verðmæt og hver ekki. Fjárlögin eigi að hafa réttlætissjónarmið og skilvirkni að leiðarljósi

Greindu efnahagsaðgerðir stjórnvalda 

„Við erum að sjá í covid að verið er að nota aðgerðir sem eru endurnýttar úr kreppunni 2008, bankakreppunni, og við sjáum að þær eru ekki að skapa störf fyrir þá hópa sem þurfa á störfum að halda eða betrumbæta stöðu hópsins sem þarf mest á því að halda, stendur höllustum fæti í samfélaginu. Það er það sem við erum að benda á, þetta er ekki góð aðgerð. “

Félagið fékk styrk frá jafnréttissjóði til að greina efnahagsaðgerðir stjórnvalda í kjölfar COVID-19. Niðurstöðurnar sýna að þær eru ekki til þess fallnar að stuðla að auknu jafnrétti.  „Þær eru ekki að grípa þá hópa sem þurfa helst á stuðningi að halda.“  Aðgerðirnar urðu ekki til þess að atvinnulaust fólk fékk vinnu, né þeir sem höfðu misst vinnuna í covid.  

Atvinna fyrst og fremst fyrir karla

„Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar og átakið Allir vinna það í rauninni skapar atvinnu fyrst og femst fyrir karla. Talið er að allt að 90% starfa sem skapast eru hefðbundin karlastörf.“  

Finnborg segir að þessar fjárfestingar hafi verið mikilvægar en stíga þurfi skrefi lengra. „Það þarf að fjárfesta í heilbrigiðiskerfinu, félagslega kerfinu, velferðarkerfinu þar sem eru hefðbundin kvennastörf. En það sem við sjáum líka í covid að þetta eru störfin sem eru líka framlínustörfin, bara álagið og áhættan eykst á þessum hópi og það þarf að umbuna þeim í samræmi við það.“ 

Á hverju ári síðan 2018 hefur félagið Femínísk fjármál sent stjórnvöldum álit sitt á fjármálaáætlun og fjárlögum og bent stjórnvöldum á að þau vinni ekki  samkvæmt eigin markmiðum. Heilmikið starf, á þessu sviði, sé unnið innan stjórnarráðsins. Í forsætisráðuneytinu er skrifstofa jafnréttismála og  í fjármálamálaráðuneytinu starfar sérfræðingur í þessum málaflokkum. „Ég myndi segja að það sé verið að vinna alla vinnuna innan stjórnarráðsins af sérfræðingum í þessum málaflokki en það vantar að pólitíkin taki annars konar ákvarðanir.“ 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV