Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Breyting á lögum bitni ekki á dómsmálum sem eru í gangi

08.03.2021 - 21:35
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í viðtali við Kveik.
 Mynd: Kveikur
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, leggst gegn því að fyrirhuguð breyting á lögum um rannsókn og saksókn í skattalagabrotum hafi áhrif á þau dómsmál sem eru þegar til rannsóknar og dómsmeðferðar. KPMG og PWC viðruðu slíka hugmynd í umsögnum sínum við frumvarpið sem og lögmannsstofan Logos en hún hefur meðal annars verið með skattamál íslensku hljómsveitarinnar Sigur Rósar á sinni könnu.

Frumvarpinu er ætlað að bregðast við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu um að tvöfaldri refsingu verði ekki beitt við rannsókn og saksókn skattalagabrota.

Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður hjá Logos og verjandi liðsmanna Sigur Rósar, nefndi meðal annars þessa tvöföldu málsmeðferð í greinargerð sinni til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna ákæru héraðssaksóknara á hendur tónlistarmönnunum fyrir skattalagabrot. 

Hann benti á að þeir hefðu þegar greitt 76 milljónir í álag og að nú væri verið að sækja þá til saka fyrir sömu brot þrátt fyrir að íslenska ríkið hefði í þrígang verið dæmt brotlegt af Mannréttindadómstól Evrópu.  Bjarnfreður nefndi þetta sama atriði í umsögn sinni til Alþingis og sagði þessi mál vera „í hrópandi mótsögn við þá mannréttindabót sem frumvarpinu væri ætlað að vera.“

KPMG lagði til að mál þeirra sem hefðu sætt álagningu og sættu nú sakamálarannsókn yrðu tekin sérstaklega fyrir þegar lögin yrðu að veruleika. „Réttast væri að fella niður rannsóknir þessara mála.“

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, hafnar þessu í umsögn sinni. Hann bendir á að beiting álags og síðan refsimeðferð leiði ekki sjálfkrafa til þess að um tvöfalda málsmeðferð sé að ræða.  Hægt sé að beita álagi og ákæru séu málin rekin samþætt í tíma og efni af hálfu skattyfirvalda og ákæruvalds. „Eftir þeirri niðurstöðu hafa síðan íslenskir dómstólar dæmt í skattamálum.“

Hann segir að ef Alþingi myndi hlutast til um með lagasetningunni að raska grundvelli þeirra mála sem nú væru til meðferðar gæti slík breyting vakið upp álitaefni varðandi endurupptöku allra þeirra skattamál sem dómur hefur verið lagður á eftir dóm MDE „með ófyrirséðum afleiðingum.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV