Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Um 50 í sóttkví vegna COVID-smits á Landspítala

07.03.2021 - 14:46
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Virkt COVID-19 smit greindist í starfsmanni göngudeildar á Landspítalanum á föstudag. Starfsmaðurinn var við störf þriðjudag til fimmtudags og hafa allir sem hann var í samskiptum við og sem eru útsettir fyrir hugsanlegu smiti verið sendir í sóttkví og sýnatöku. Um 50 manns eru hugsanlega útsett fyrir smiti, segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans. Í þeim hópi er bæði starfsfólk og sjúklingar.

Þetta er fyrsta virka COVID-19 smitið sem greinist utan sóttkvíar innanlands í rúman mánuð. Önnur smit innanlands í millitíðinni hafa verið gömul eða greinst hjá fólki sem var í sóttkví.

„Við tökum þetta mjög alvarlega og þetta mun áhrif á starfsemi göngudeildarinnar í næstu viku. Það þarf að þrífa deildina á morgun. Við þurfum að skima starfsmenn,“ segir Már. Ekki er búið að bólusetja alla starfsmenn þar sem ekki hefur fengist nógu mikið af bóluefnum til að bólusetja allt starfsfólk sjúkrahússins. Í fyrstu atrennu voru framlínustarfsmenn bólusettir. „Það er hörgull á bóluefni og allir finna fyrir því.“

Vísir greindi fyrst miðla frá smitinu. Þar kom fram að starfsmaðurinn hefði ekki verið að koma frá útlöndum.

Starfsmaðurinn vinnur á göngudeild smitsjúkdóma, ofnæmis og lungnasjúkdóma. Már segir að sjúklingahópurinn sem þarna sækir þjónustu sé viðkvæmur. Fólk verði kallað inn til greiningar og sett í sóttkví eftir atvikum. Kastað verður víðu neti strax í upphafi, segir Már. Allir sem hugsanlega eru útsettir fyrir smiti fara í sóttkví eða úrvinnslusóttkví. Fólk sem er búið að bólusetja getur snúið aftur til starfa þegar það fær neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku. Þau sem hafa ekki verið bólusett þurfa að fá tvær neikvæðar niðurstöður með viku millibili áður en þau losna úr sóttkví.

„Við erum að taka þennan atburð alvarlega einfaldlega vegna þess að árangurinn hefur verið svo góður hingað til og það væri hræðilegt að fá faraldur út frá þessu atviki. Við höfum enga vitneskju um að neinn hafi smitast út frá þessu,“ segir Már. Smitrakningadeild almannavarna vinnur að því að rekja smitið.

Uppfært 15:12 með nákvæmari upplýsingum um smit undanfarið.