Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tvö greinst með breska afbrigðið síðustu daga

07.03.2021 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: Tmaximumge - Wikipedia
Tvö hafa greinst með breska afbrigði COVID-19 síðustu daga og beðið er endanlegrar greiningar þriðja smitsins. Tvö smit hafa greinst síðustu daga utan sóttkvíar hér innanlands, bæði tengjast óbeint einstaklingi sem kom frá útlöndum og greindist með COVID-19 í seinni skimun síðastliðinn fimmtudag. Einn þeirra sem smituðust fór á tónleika í Hörpu á föstudag. Tíu sem sátu næst viðkomandi eru komin í sóttkví og til stendur að skima alla tónleikagesti á morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. 

Sá sem greindist með COVID-19 smit eftir komuna hingað frá útlöndum greindist með breska afbrigðið. Sömuleiðis annar þeirra sem greindist með smit hér innanlands. Smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis vinnur að smitrakningu og hefur boðið fólk sem tengist innlendu smitunum í skimun. 

Í yfirlýsingu almannavarna segir að ríflega 30 starfsmenn og sjúklingar séu komnir í sóttkví í tengslum við smit sem greindist á Landspítala. Í fyrri frétt sagði að um 50 manns væru í sóttkví vegna málsins og byggði á samskiptum við Landspítala.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir meðal annars: „Á morgun, mánudag 8. mars, er fyrirhuguð skimun á öllum tónleikagestum. Þeir sem ætla að mæta í skimun í tengslum við tónleikana verða að bóka tíma í gegnum Mínar síður á Heilsuvera.is og velja þar „Tónleikagestur í Hörpu 5. Mars 2021.“ Þeir sem skrá sig fá sent strikamerki og tímasetningu fyrir skimun. Allir tónleikagestir eru eindregið hvattir til að mæta í skimun og jafnframt að huga vel að persónulegum smitvörnum og að takmarka samskipti við aðra þangað til að niðurstaða úr skimun liggur fyrir.“