Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Næstu tveir sólarhringar geta skipt sköpum

07.03.2021 - 19:28
Næstu einn eða tveir sólarhringar geta skorið úr um það hvort fjórða bylgja kórónuveirufaraldursins hefjist og herða þurfi sóttvarnaráðstafanir á ný sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í kvöldfréttum. Það skýrist af því hvaða niðurstöður koma úr sýnatökum og smitrakningu vegna greiningar tveggja einstaklinga utan sóttkvíar með COVID- síðustu daga. Báðir virðast hafa smitast af einstaklingi sem kom til landsins fyrir skemmstu. Tveir af þremur hafa greinst með breska afbrigði kórónuveirunnar.

Þórólfur sagði að þessi staða væri vonbrigði en hún væri ekki óviðbúin, varað hafi verið við því að það þyrfti aðeins eitt smit að komast í gegn til að illa gæti farið.

Þórólfur sagði erfitt að segja til um það nú hvaða áhrif nýju smitin kynnu að hafa. „Ég held að næstu einn eða tveir sólarhringarnir muni skera úr um það, og að öll þessi skimun sem fer fram í dag og á morgun muni segja okkur mikið um hversu útbreitt þetta er. Þá getum við betur fullyrt um það.“ Hann sagði að niðurstöður skimana ráða miklu um hvort herða þurfi sóttvarnaráðstafanir frá því sem nú er.

800 manna tónleikar verða í Hörpu í kvöld. Þórólfur sagði að það gæti verið umdeilanlegt en hann hefði verið í góðu sambandi við stjórnendur Hörpu. „Það var gert sérstakt hreinsunarátak í dag á sameiginlegum flötum,“ sagði Þórólfur en tók fram að fólk yrði að passa sig vel, bæði þar og annars staðar. „Mjög mikilvægt. Menn mega ekki sofna á verðinum núna. Þótt það sé verið að slaka á ýmsum takmörkunum í samfélaginu og slaka á skorðum við alls konar starfsemi þá þýðir það ekki að við getum slakað á persónubundnum sóttvörnum. Við verðum að standa okkur vel í því.“