Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mjög mikil skjálftavirkni í nótt

Mynd með færslu
Jarðskjálftar eru algengir á þessu svæði. Mynd: RUV
Skjálftavirknin á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga hefur færst mjög í aukana í nótt og frá miðnætti hafa orðið sex skjálftar af stærðinni fjórir og þar yfir, sá stærsti 5,0. Sá varð klukkan 2:02 og átti upptök sín á 6,6 kílómetra dýpi, um 3 kílómetra vest-suðvestur af Fagradalsfjalli.

Um klukkan 02:45, þegar verið var að skrifa þessa frétt, reið enn einn öflugur skjálfti yfir sem fannst vel í útvarpshúsinu við Efstaleiti, eins og væntanlega annars staðar á suðvesturhorninu, sá reyndist 4,0 að stærð.

Sigurdís Björg Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir mjög mikla skjálftavirkni á svæðinu þessa stundina, og hún hafi færst eilítið í vestur. Engin merki eru þó uppi um gosóróa. 

Alls hafa 19 skjálftar af stærðinni þrír eða þar yfir orðið frá miðnætti til klukkan þrjú, þegar þessi frétt var uppfærð.  Skjálftavirkni næturinnar er nær alfarið bundin við Fagradalsfjall og næsta nágrenni, líkt og virkni gærdagsins, en hún hefur þó eitthvað verið á hreyfingu til vesturs.