Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hugsanlegt að fjórða bylgjan hefjist svona

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Tvö kórónuveirusmit greindust innanlands um helgina og hugsanlegt að fjórða bylgja faraldursins sé í uppsiglingu. Þau smituðu búa í sama stigagangi fjölbýlishúss í Reykjavík. Annað þeirra er starfsmaður á Landspítalanum þar sem tugir eru nú komnir í sóttkví. Starfsmaðurinn sótti stórtónleika í Hörpu á föstudag. 

Líklega snertismit í stigagangi

Smit hafði ekki greinst innanlands í einn og hálfan mánuð, en nú er staðan breytt. Síðustu daga hafa greinst tvö smit utan sóttkvíar. Búið er að raðgreina annað smitið og ljóst að þar er breska afbrigðið, sem er meira smitandi, á ferðinni. Smitrakning bendir til þess að fólkið hafi smitast af manneskju sem býr í sama stigagangi í fjölbýlishúsi, sú kom til landsins í byrjun mánaðarins og greindist með breska afbrigðið í seinni skimun. „Það er enginn annar samgangur sem við vitum um nema að þau búa í sama stigagangi og sömu hæð, mismunandi íbúðum og ef svo er þá þarf ansi lítið til að smit verði, það getur verið með snertismiti, mengaður hlutur eða einhvers konar úðasmit,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi sem almannavarnir boðuðu til í dag. 

Um þrjátíu starfsmenn og sjúklingar í sóttkví

Búið er að loka göngudeild smitsjúkdóma, ofnæmis og lungnasjúkdóma á Landspítalanum að hluta, óljóst hve lengi. Starfsmaðurinn var við störf frá þriðjudegi til fimmtudags, hann fann fyrir einkennum snemma í vikunni og fór rakleiðis í skimun, sýnið reyndist neikvætt en einkennin versnuðu áfram, á föstudag fór starfsmaðurinn á tónleika í Hörpu. Í gærmorgun fór hann aftur í skimun og reyndist jákvæður. Um þrjátíu starfsmanna og sjúklingar eru komin í sóttkví. Már Kristjánsson, yfirlæknir á Smitsjúkdómadeild Landspítala, segir að um þriðjungur þeirra sem fóru í sóttkví eftir samskipti við smitaða starfsmanninn séu sjúklingar og að ætla megi að þeir séu í meiri hættu en aðrir á að veikjast alvarlega af kórónuveirunni. „Ef ske kynni að þetta kæmi inn á deildina er talsverður skaði skeður og við viljum afmarka þann skaða sem allra allra fyrst.“ Hann segir óljóst hvort viðbúnaðarstig spítalans verði hækkað. „Á þessari stundu erum við ekki að hugsa um það en það fer svolítið eftir niðurstöðum þeirra gagna sem við erum að afla í dag og í fyrramálið.“Þá verða niðurstöður víðtækrar skimunar á deildinni ljósar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn

 

Ekki útilokað að smit hafi borist á aðrar deildir

Verklag á spítalanum var endurskoðað eftir hópsmitið á Landakoti í haust. Már leggur áherslu á að starfsmaðurinn sem smitaðist hafi verið mjög gætinn og að sóttvarnir hafi verið virtar. Hann segir ekki hægt að útiloka að smit hafi borist á aðrar deildir spítalans, en slakað hefur verið á hólfaskiptingu þar undanfarið. „Við höfum bara gengið í takt við það sem almennt gerist í samfélaginu,“ segir Már.

„Innan marka hins mögulega að fjórða bylgjan hefjist svona“

Búið er að skima alla sem búa í stigagangi fjölbýlishússins, þá hafa tæplega 800 gestir sem sóttu tónleikana í Hörpu verið boðaðir í skimun og þeir sem sátu næst hinum smitaða sendir í sóttkví.  Það skýrist á næstu dögum hversu umfangsmikið smitið er en bæði spítalinn og almannavarnir eru tilbúin að grípa til harðra aðgerða, stórkarlalegra eins og Már orðar það, til að koma í veg fyrir að fjórða bylgjan fari af stað. „Þetta er eitthvað sem við erum alltaf með bak við eyrað og það er alveg innan marka hins mögulega að fjórða bylgjan hefjist með þessum hætti,“ segir Már.