Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Pulp Fiction er jafnvel meira sjokkerandi núna

Mynd: RÚV / Miramax

Pulp Fiction er jafnvel meira sjokkerandi núna

06.03.2021 - 14:16

Höfundar

Slagkraftur kvikmyndar Quentins Tarantinos, Pulp Fiction, er engu minni í dag en þegar hún kom fyrst út árið 1994, segir Ari Eldjárn grínisti. Myndin er í bíóást á RÚV í kvöld

Ari Eldjárn sá Pulp Fiction fyrst snemma árs 1995. Þá hafði hún verið í sýningum í nokkra mánuði og eldri bróðir hans verið mjög ákafur í að Ari myndi sjá hana. „Hann keypti miða fyrir okkur báða og svo smyglaði hann mér inn. Þetta var í litla salnum í Regnboganum og hún var rosa mikið bönnuð innan 16 en ég var bara 13 ára, að verða. Þannig að þetta var rosalegt ævintýri og rosalega forboðin mynd.“

Pulp Fiction hafði verið umtalaðasta myndin í bænum um nokkurt skeið og tónlistin í henni hertekið útvarpstæki og diskaspilara. „Ég áttaði mig á því þegar ég horfði á hana í bíó að ég hafði heyrt öll lögin milljón sinnum því að platan var búin að vera non-stop spiluð allan veturinn og maður þekkti bara allt í einu heilu setningabrotin. Maður kunni þetta allt og hafði ekki einu sinni séð myndina.“

Pulp Fiction varð að mælistiku sem borin var við allar aðrar myndir þegar hún kom út. Myndin er engu síðri í dag, meira en aldarfjórðungi síðar, segir Ari. „Hún hefur algerlega staðist tímans tönn og er bara alveg jafn kraftmikil og jafnvel meira sjokkerandi núna heldur en hún var þá.“

Það var mikið látið með það að John Travolta væri loksins í bitastæðu hlutverki eftir mögur ár í Hollywood. „Það var svolítið talað um hann eins og hann væri hundgamall af því að það var orðið svo langt síðan Saturday Night Fever kom út,“ segir Ari. „Maður sér það núna, eftir á, að hann er náttúrulega mjög ungur í þessari mynd og þetta er ekkert rosalega seint í ferlinum hans. Hann er enn þá að.“

Ari líkt og svo margir aðrir sem sáu Pulp Fiction varð fyrir miklum áhrifum. „Ég man þegar ég kom út af þessari mynd að ég talaði stanslaust. Ég hafði aldrei séð glæpamenn í bíómynd tala um venjulega hluti. Aldrei séð þá ræða um mismunandi tegundir af mat. Þetta var alveg rosalega nýtt, fannst manni. En þetta var líka held ég fyrsta myndin sem ég man eftir sem var eiginlega ekki línuleg. Sem var í mismunandi köflum þar sem er farið til baka og hoppað fram. Mér fannst það ótrúlega merkilegt. Ég held ég hafi jafnvel haldið þegar ég sá hana að þetta væri fyrsta myndin þar sem það væri gert, sem er náttúrulega ekki tilfellið.“

Pulp Fiction er í Bíóást á RÚV kl. 22.05 í kvöld.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Tarantino streitist á móti breyttum tímum

Kvikmyndir

Tarantino: „Ein mesta eftirsjá lífs míns“

Kvikmyndir

Bíóást: „Svalasta mynd allra tíma“