Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Pósturinn mögulega að hætta hefðbundnum bréfburði

06.03.2021 - 06:20
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Forstjóri Íslandspósts segir að fyrirtækið muni hugsanlega hætta að bera bréf í hvert hús og hverja lúgu, til að mæta hagræðingarkröfum. Til þess þurfi þó að breyta lögum um starfsemi þess. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar er haft eftir Þórhildi Ólöfu Helgadóttur forstjóra að hagræðingaraðgerðir fyrirtækisins séu komnar að þolmörkum og ekki verði hagrætt meira í rekstrinum nema þjónustuskyldu þess verði breytt.

Þórhildur segir eina mögulega leið vera þá, að hætta að bera út bréf með þeim hætti sem tíðkast hefur til þessa, enda hafi bréfasendingar dregist mjög saman.

Í frétt blaðsins kemur fram að tekjur Íslandspósts minnkuðu um 250 milljónir milli áranna 2019 og 2020 og voru 7,45 milljarðar í fyrra. Á sama tíma hafi launakostnaður lækkað um 440 milljónir, enda hafi fyrirtækið fækkað stöðugildum um ríflega 200 frá árinu 2018.