Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hong Kong sem við þekktum er ekki lengur til

06.03.2021 - 19:55
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína · Stjórnmál
Mynd: Skjáskot / RÚV
Hong Kong er orðið eins og hvert annað hérað í Kína eftir að ný öryggislöggjöf tók gildi og kínversk stjórnvöld hertu tökin, sagði Helgi Steinar Gunnlaugsson alþjóðastjórnmálafræðingur í sjónvarpsfréttum í kvöld. Bandaríkjastjórn og Evrópusambandið hafa gagnrýnt áform Kínastjórnar um breytingar á kosningalöggjöf í Hong Kong. Samkvæmt henni mega aðeins þeir gefa kost á sér í kosningum sem heita stjórnvöldum í Peking hollustu sinni.

„Aðalgagnrýnin hérna er ekki endilega hvað kínversk stjórnvöld eru að gera heldur tímasetningin á því,“ sagði Helgi Steinar. Hann vísaði til þess að þegar Hong Kong fluttist undir Kína árið 1997 var samið um að svæðið héldi sérréttindum sínum til ársins 2047.

„Kosningar í Hong Kong voru alltaf mjög hliðhollar Peking til að byrja með. Þau hafa voða mikið vægi og geta sagt voða mikið um hvernig Hong Kong er stjórnað. Það greinilega er ekki nóg og með þessu vilja þeir útrýma öllum gagnrýnisröddum sem geta látið í sér heyra,“ sagði Helgi Steinar. „Þegar kemur að Hong Kong og Taívan munu kínversk stjórnvöld aldrei hlusta á neinar raddir aðrar en sínar eigin.“ Það sagði Helgi Steinn að væri vegna þess að Kínverjar litu á Hong Kong sem sitt innanríkismál.

„Það Hong Kong sem við þekktum fyrir örfáum árum síðan er ekki lengur til. Öryggislöggjöfin er komin í gang. Það fóru 47 manns í fangelsi núna nýlega, sumir fyrrverandi stjórnmálamenn. Ef þú vilt bjóða þig fram til að fara í stjórnmál í Hong Kong verðurðu að heita stjórnvöldum í Peking hollustu þinni. Í rauninni má segja að Hong Kong sé orðið eins og hvert annað kínverskt hérað. Það er raunveruleikinn sem við verðum að horfast í augu við.“