Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Grafarþögn í herbúðum Framsóknarflokksins um dóminn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er þögult í þingflokki Framsóknarflokksins um dóm héraðsdóms sem féll í gær í máli varaformanns flokksins og ákvörðun hennar um að áfrýja málinu til Landsréttar. Forsætisráðherra hefur ekki viljað veita viðtal og formaður Framsóknarflokksins lætur ekki ná í sig, og ekki aðstoðarmennirnir hans heldur.

Héraðsdómur staðfesti að jafnréttislög voru brotin 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur ekkert tjáð sig opinberlega um niðurstöðu héraðsdóms í gær þar sem kröfu hennar um ógildingu úrskurðar um að hún hefði brotið jafnréttislög var hafnað. Dómurinn úrskurðaði fyrir hádegi í gær um að úrskurður kærunefndar jafnréttismála, um að ráðherra hefði brotið jafnréttislög við ráðningu ráðuneytisstjóra, væri vel á rökum reistur og engin ástæða væri til að fella hann úr gildi.

Ætlar ekkert að segja um dóminn

Ekkert hefur náðst í Lilju síðan dómurinn féll, en aðstoðarmaðurinn hennar sagði í gær að hún ætli ekkert að segja um málið á meðan það er í áfrýjunarferli fyrir Landsrétti, en það getur verið allt að tvö ár. Viðtalsbeiðni var ítrekuð í dag og henni hafnað. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur ekkert látið ná í sig og heldur ekki aðstoðarmenn hans, hvorki í dag né í gær. Þeir fáu þingmenn Framsóknarflokksins sem fréttastofa náði þó tali af í dag vilja ekkert tjá sig opinberlega um dóminn eða áfrýjunina eða koma í viðtal. Sumir vísa á formann flokksins og, eðlilega, varaformanninn. Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson segjast styðja ákvörðun ráðherra um að áfrýja dómnum. 

Katrín vill heldur ekki tjá sig

Katrín Jakobsdóttir, sem er meðal annars ráðherra jafnréttismála, hefur ekki orðið við beiðni um viðtal. Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa látið óánægju sína á málinu í ljós, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, en þingmenn ríkisstjórnarflokkanna eru þöglir sem gröfin.