Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gagnrýna niðurskurð á fjárhagsaðstoð til Jemen

06.03.2021 - 11:38
epa09044785 Displaced Yemenis get food rations provided by Mona Relief Yemen ahead of an international donors conference on Yemen, at a camp for Internally Displaced Persons (IDPs) in Sana'a, Yemen, 01 March 2021. The United Nations is launching an international donors conference on Yemen Humanitarian Response Plan to address a humanitarian crisis in the war-torn country, warning that over 16 million people, more than half of Yemen's population, would go hungry in 2021, with already some half a million people living in famine-like conditions.  EPA-EFE/YAHYA ARHAB
 Mynd: EPA-EFE - EPA
„Sagan mun ekki fella fallegan dóm yfir Bretum ef við snúum baki við fólkinu í Jemen,“ segir meðal annars í bréfi sem sent var í nafni yfir 100 hjálparsamtaka til forsætisráðherra Bretlands. Ný gögn benda til að ríkisstjórn Bretlands ætli að skera fjárhagsaðstoð til Jemen um helming.

Á árunum 2019 til 2020 gáfu bresk stjórnvöld 164 milljónir punda til hjálparstarfs í Jemen. Hún er næstum helmingi lægri upphæðin sem stendur til að styrkja Jemena nú ári síðar, eða 87 milljónir punda. 

Og það er á fleiri stöðum sem til stendur að skera niður hjálparframlög. Í gögnum sem lekið var úr breska stjórnkerfinu og eru til umfjöllunar á vef breska ríkisútvarpsins, BBC, kemur einnig fram að stjórnvöld hyggist skera niður fjárstuðning til Sýrlands um 67%, til Suður Súdan um 59% og til Líbanon um 88%. 

Fleiri en 100 hjálparsamtök í Bretlandi hafa gagnrýnt þessa ákvörðun harðlega.

Sagan mun ekki fella fallegan dóm yfir Bretum ef við snúum baki við fólkinu í Jemen, segir meðal annars í bréfi sem barst Boris Johnson, forsætisráðherra Breta í nafni hjálparsamtakanna. 

Talsmaður utanríkisráðuneytis Bretlands sagði hins vegar að áframhaldandi stuðningur við Jemena væri sannarlega á stefnuskránni. Það hefur þó verið gefið út að ríkisstjórnin ætli að draga úr erlendri fjárhagsaðstoð um fjóra milljarða punda á árunum 2021 til 2022.

Með  því myndu Bretar ekki lengur ná því markmiði Sameinuðu þjóðanna að verja 0,7% af þjóðartekjum sínum til hjálparstarfs. Það hefur þó ekki verið gefið út opinberlega á hvaða sviðum verður skorið niður, fyrstu vísbendingar um það eru í skjölunum sem lekið var.

Fyrr í vikunni voru sagðar fréttir af því að ekki náðist að safna nema tæpum helmingi þess fjár sem þörf er á á áheitaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir Jemen.