Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Furðar sig á ákvörðun ráðherra um að áfrýja

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar Alþingis furðar sig á þeirri ákvörðun menntamálaráðherra að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms. Dómurinn hafnaði í gær kröfu ráðherra um að ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála um að hún hafi brotið jafnréttislög.

 

Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði í maí að Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, hefði brotið jafnréttislög með því að ráða Pál Magnússon, bæjarritara Kópavogsbæjar, í starf ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins. Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, sóttist einnig eftir starfinu og hafði kært ráðninguna til nefndarinnar í mars.

Lilja vísaði málinu til héraðsdóm og krafðist ógildingar á úrskurði kærunefndar. Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu í gær að úrskurðurinn hafi verið vel rökstuddur að engir annmarkar hafi verið á meðferð málsins í nefndinni. Því var kröfu ráðherra hafnað.

Lilja hefur hingað til ekki viljað veita viðtal vegna málsins en hefur hins vegar ákveðið að áfrýja því til Landsréttar.

Helga Vala Helgadóttir, formaður Velferðarnefndar Alþingis og þingmaður Samfylkingarinnar, furðar sig á þessari ákvörðun.

„Mér finnst hún sækja þetta ansi hart. Við erum með skýr jafnréttislög á landinu. Auðvitað á umsækjandi um þetta starf rétt á því að bera það undir kærunefndina sem var afdráttarlaus. Stundum hefur maður bara rangt fyrir sér og ég held að ráðherra í þessu tilviki verði að játa sig sigraða og viðurkenna að hún hafði rangt fyrir sér þegar hún skipaði flokksbróður sinn sem ráðuneytisstjóra í staðinn fyrir þennan umrædda umsækjanda sem virðist bæði hafa meiri menntun, meiri reynslu og meira hæfi til þess að gegna embættinu,“ segir Helga Vala.

Hún segir að ráðherra hafi vissulega þann rétt að áfrýja málinu.

„En það er spurning hversu langt þú ert til í að draga almenning fyrir skattfé almennings til að reyna að finna niðurstöðu sem er þér þóknanleg,“ segir Helga Vala.