Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Engin sátt í Öryggisráðinu um stöðuna í Tigray

Tigray people who fled the conflict in Ethiopia's Tigray region, stand on a hill top over looking Umm Rakouba refugee camp in Qadarif, eastern Sudan, Thursday, Nov. 26, 2020. Ethiopia's prime minister said Thursday the army has been ordered to move on the embattled Tigray regional capital after his 72-hour ultimatum ended for Tigray leaders to surrender, and he warned the city's half-million residents to stay indoors and disarm. (AP Photo/Nariman El-Mofty)
Tugir þúsunda Tigray-búa flýðu til nágrannaríkisins Súdans þegar átökin brutust út í nóvember 2020. Mynd: AP
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna féll í gær frá öllum áætlunum um ályktun, þar sem kallað yrði eftir því að deiluaðilar í Eþíópíu legðu niður vopn og létu af öllum átökum í Tigray-héraði. Ástæðan er sögð andstaða Kínverja og Rússa við slíka ályktun, eftir tveggja daga viðræður. „Það náðist ekkert samkomulag," hefur AFP fréttastofan eftir ónefndum heimildarmanni, „og það eru engin áform um að halda áfram viðræðum."

Erítreuher sakaður um stríðsglæpi í Tigray

Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu og handhafi friðarverðlauna Nóbels, boðaði hernaðaraðgerðir gegn leiðtogum og vopnuðu sveitum Þjóðfrelsisfylkingar Tigrayhéraðs í nóvember í fyrra og sveitir Eþíópíuhers réðust inn í héraðið skömmu síðar. Um svipað leyti bárust fregnir af innrás Erítreuhers í Tigray-hérað, og sökuðu leiðtogar Þjóðfrelsisfylkingarinnar Ahmed um að hafa samið við nágrannaríkið um liðveislu í hernaðinum.

Háttsettir embættismenn Sameinuðu þjóðanna sökuðu í vikunni Erítreuher um að hafa framið stríðsglæpi í Tigray-héraði í nóvember, en hvort tveggja eþíópísk og erítreísk stjórnvöld þvertaka fyrir að Erítreuher hafi tekið þátt í hernaðinum .

Kínverjar og Rússar segja átökin innanríkismál

AFP hefur eftir öðrum heimildarmanni að Kínverjar hafi sett sig upp á móti orðalagi fyrirliggjandi draga að ályktun, og krafist þess að orðin „ofbeldisverk í Tigray" yrðu tekin út. Rússar studdu þá kröfu, en Vesturlönd stóðu fast á því að halda orðalaginu óbreyttu.

Bæði Rússar og Kínverjar hafa haldið því fram allt frá upphafi átakanna í Tigray, að þau séu innanríkismál Eþíópíu og að Sameinuðu þjóðirnar eigi að láta þau afskiptalaus. Fulltrúar þeirra í Öryggisráðinu vildu að ályktunin snerist eingöngu um það neyðarástand sem ríkir í héraðinu vegna matar- og lyfjaskorts.

Tvenn alþjóðleg mannréttindasamtök saka Erítreuher um fjöldamorð

Fyrr í gær birtu samtökin Human Rights watch skýrslu um ofbeldisverk Erítreuhers í Tigray, þar sem fram kemur að liðsmenn hans hafi myrt hundruð óbreyttra borgara, karla, konur og börn, þegar þeir réðust inn í héraðið í nóvember.

Fyrr í vikunni birti Amnesty International skýrslu um sömu atburði. Í henni er því lýst, hvernig erítreískar hersveitir hefðu „gengið berserksgang og drepið hundruð óbreyttra borgara með köldu blóði og skipulegum hætti.“