Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bjargræðispakki samþykktur eftir miklar deilur

06.03.2021 - 21:04
epa09057723 US President Joe Biden, with Vice President Kamala Harris, delivers remarks on the Senate Passage of the 1.9 trillion US dollars coronavirus relief bill from the State Dining Room of the White House in Washington, DC, USA, 06 March 2021. The bill now returns to the House for reconciliation where it is scheduled for a vote next 09 March.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag bjargræðispakka til að takast á við efnahagskreppuna sem fylgt hefur COVID-19 heimsfaraldrinum. Þetta er næst stærsti bjargræðispakki sögunnar. Hart hafði verið tekist á um efnisatriði hans í Bandaríkjaþingi áður en hann var samþykktur með eins atkvæðis mun, 50 atkvæðum gegn 49. Atkvæði féllu eftir flokkslínum.

Lengi var tvísýnt um hvort Demókratinn Joe Manchin myndi kjósa með flokksfélögum sínum eða Repúblikönum þar sem honum þótti of miklu fé varið í atvinnuleysisbætur. Viðbótargreiðslur til handa atvinnulausum voru lækkaðar til að tryggja stuðning hans. Demókratar náðu í gegn 1.400 dollara eingreiðslu til velflestra Bandaríkjamanna en gáfu eftir ákvæði um fimmtán dollara lágmarkslaun á klukkustund. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti flutti ávarp að afgreiðslu öldungadeildarinnar lokinni. Hann sagði að ferlið hefði ekki verið auðvelt, og ekki alltaf litið vel út, en að það hefði verið nauðsynlegt að ná málinu í gegn. Biden sagði að Bandaríkjamenn hefðu þjáðst of mikið og of lengi, en að allt í bjargræðispakkanum væri ætlað til að draga úr þjáningum og mæta nauðsynlegustu þörfum þjóðarinnar og hjálpa henni að komast í gegnum vandann.