
Bjargræðispakki samþykktur eftir miklar deilur
Lengi var tvísýnt um hvort Demókratinn Joe Manchin myndi kjósa með flokksfélögum sínum eða Repúblikönum þar sem honum þótti of miklu fé varið í atvinnuleysisbætur. Viðbótargreiðslur til handa atvinnulausum voru lækkaðar til að tryggja stuðning hans. Demókratar náðu í gegn 1.400 dollara eingreiðslu til velflestra Bandaríkjamanna en gáfu eftir ákvæði um fimmtán dollara lágmarkslaun á klukkustund.
Joe Biden Bandaríkjaforseti flutti ávarp að afgreiðslu öldungadeildarinnar lokinni. Hann sagði að ferlið hefði ekki verið auðvelt, og ekki alltaf litið vel út, en að það hefði verið nauðsynlegt að ná málinu í gegn. Biden sagði að Bandaríkjamenn hefðu þjáðst of mikið og of lengi, en að allt í bjargræðispakkanum væri ætlað til að draga úr þjáningum og mæta nauðsynlegustu þörfum þjóðarinnar og hjálpa henni að komast í gegnum vandann.