Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Aukin skjálftavirkni en enginn gosórói

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Skjálftavirknin á Reykjanesskaga hefur farið vaxandi í kvöld en enginn gosórói hefur mælst, segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni. Síðustu rúma þrjá klukkutímana hafa mælst níu jarðskjálftar sem eru 3,0 eða stærri og mjög margir smáskjálftar.

Stærsti skjálftinn var 3,5 og reið yfir þegar klukkuna vantaði sextán mínútur í sjö. Jarðskjálftarnir hafa flestir verið einn til tvo kílómetra fyrir sunnan Fagradalsfjall og verið á fimm og hálfs til sex og hálfs kílómetra dýpi. Undantekningin er einn jarðskjálfti sem var tæpa þrjá kílómetra suðsuðaustan við fjallið á fjögurra kílómetra dýpi. Frá miðnætti hafa mælst 24 skjálftar á bilinu 3 til 3,6.
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV