Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Albatrosinn Viska er heimsins elsta fuglamóðir

06.03.2021 - 05:44
Albatrosakerlingin Wisdom er elsti, villti fugl sem vitað er til að hafi komið unga úr eggi. Hún er minnst sjötug að aldri og þessi ungi skreið úr eggi 1. febrúar 2021.
Albatrosakerlingin Wisdom, eða Viska, með nýklakinn unga sinn. Mynd: Friends of Midway NWR - Facebook
Albatrosakerlingin Wisdom, eða Viska, elsti, þekkti villifugl sem vitað er um, ungaði út afkvæmi á dögunum, sjötug að aldri hið minnsta. Engin þekkt dæmi eru um að svo gamall fugl hafi komið unga á legg úti í náttúrunni. Viska, sem er Laysan-albatrosi, verpti eggi sínu í stærstu albatrosabyggð í heimi, náttúruverndarsvæðinu á Midway-hringrifinu í Norður-Kyrrahafi, í nóvemberlok. Unginn skreið svo úr egginu fyrsta febrúar.

Laysan-albatrosar lifa sjaldnast lengur en 12 - 40 ár en Viska var fönguð og merkt fyrsta sinni árið 1956 og var þá fullorðinn fugl. Faðir ungans er núverandi karl Visku, Akeakamai, sem hún hefur bundið trúss sitt við frá árinu 2012. Albatrosar maka sig yfirleitt fyrir lífstíð, en Viska hefur lifað þá nokkra, albatrosakarlana, á sinni löngu ævi.

Stærsta albatrosabyggð heims

Þótt unginn hafi klakist út 1. febrúar greindu stjórnendur verndarsvæðisins ekki frá því fyrr en í liðinni viku. „Viska verpti eggi sínu einhvern síðustu daga nóvember," segir í tilkynningu þeirra. „Skömmu síðar hélt Viska aftur til hafs í fæðuöflun og maki hennar, Akeakamai, tók við útungunarskyldum. Albatrosaforeldrar skipta með sér verkum á útungunartímanum og líka við fæðuöflun þegar unginn er skriðinn úr eggi."

Vísindamenn náttúruverndarsvæðisins á Midway telja Visku hafa eignast á bilinu 30 til 36 unga um ævina, en albatrosar verpa að jafnaði einu eggi á tveggja ára fresti og jafnvel sjaldnar. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV