Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stund milli stríða

Mynd með færslu
 Mynd: Sváfnir Sig - Jæja gott fólk

Stund milli stríða

05.03.2021 - 16:24

Höfundar

Jæja gott fólk er önnur sólóplata Sváfnis Sigurðarsonar. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Fyrsta plata Sváfnis kom út 2016, mér finnst eins og það sé styttra síðan. Sú plata var giska vel heppnuð, einlægt söngvaskáldapopp með glúrnum textum sem segja sögur og pæla í lífinu og tilverunni. „Textalega er Sváfnir mestanpart á tilvistarpælingalegum nótum út plötuna, verðugar vangaveltur um tilgang þessa alls og kemst hann vel frá þeim þætti. Einlægt og heiðarlegt verk þegar allt er saman tekið,“ sagði ég í dómi á sínum tíma. Platan bar það með sér að vera samtíningsplata að einhverju leyti en því er ekki fyrir að fara á þessu verki hér. Það er heildstæð hljómsveitaára yfir, öll lögin í sama ramma og rennslið býsna gott.

Sváfni er lagið að seyða til sín flotta meðspilara og þessi plata lútir sömu lögmálum og sú fyrri. Þeir sem koma mest að málum eru Flosi Þorgeirsson, bassaleikari, Kristján Freyr Halldórsson, trommuleikari, Pálmi Sigurhjartarson, hljómborðsleikari og Stefán Már Magnússon, gítarleikari. Upptökur og hljóðblöndun var í höndum Arons Þórs Arnarssonar og Sváfnir semur öll lög og texta plötunnar

Ég lýsti Sváfni sem lunknum lagasmiði í fyrri dómi og það orð lýsir honum vel. Þetta eru lög sem eru ekki augljós, blasa ekki við, innihalda ekki ódýr skátagrip. Samsetning greinilega doldið pæld, hvenær á að hækka, lækka, stoppa eða hraða. Popp með framsæknu sniði í vissum skilningi. Tónninn er sleginn strax í upphafi á „Fólk breytist“. Rólegt lag en þrungið boðskap og borið uppi af svipmikilli rödd Sváfnis. Hann syngur vel, af ástríðu og einlægni og maður svona „heldur með honum“, sérstaklega í dramatískari lögunum. „Fólk breytist“ einkennist kannski öðru fremur af vel skrifuðum texta, hugmyndin um að fólk geti sannarlega breyst þó að fjöllin séu alltaf eins. Eftirsjá, skömm og slíkt, skiljum það eftir og höldum áfram. „Í baksýnisspeglinum blasir nú við það sem byrgði mér sýn / Svo ég leiðrétti stefnu og leiðina aftur ég finn heim til þín.“ Hér er ekki kastað til höndum! Aðrir textar fylgja sama gæðastaðli, oft mjög vel til fundnar línur um brölt mannskepnunnar sem flestir geta tengt við. Svo eru lög eins og „Fer sem fer“, með níunda áratugs gítarklingi, sem er hálfgerður slagari eða hefur að minnsta kosti allt til brunns að bera til að standa undir slíku.

Jæja gott fólk inniheldur framúrskarandi ljóðmæli, sett við haganlega skrifuð lög sem eru leikin af mikilli fítons-sveit. Strangheiðarlegt og vel mótað verk sem höfundur getur verið stoltur af.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Sváfnir Sig - Jæja gott fólk

Tónlist

Loforð um nýjan dag