Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stefnir í metár í framkvæmdum

05.03.2021 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Það stefnir í metár í framkvæmdum, að sögn formans Sambands iðnfélaga. Margir nýta sér endurgreiðslu virðisaukaskatts og ráðast í framkvæmdir á heimilum sínum. Tólf milljarðar voru endurgreiddir frá mars 2020 til áramóta.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts var tímabundið hækkuð úr 60 prósentum í 100 prósent í tengslum við Allir vinna-átakið til að bregðast við niðursveiflu í efnahagslífinu vegna heimsfaraldursins.

Níu þúsund endurgreiðslubeiðnir á virðisaukaskatti vegna vinnu iðnaðarmanna við endurbætur og viðhald hafa borist það sem af er ári. Í fyrra voru þær 45 þúsund yfir allt árið og 12 þúsund árið 2019. Hundrað og þrjátíu milljónir hafa verið endurgreiddar á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs. 

Fólk ekki að eyða peningum í utanlandsferðir

Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, sambands iðnfélaga, segir úrræðið hafa gefið góða raun. 

„Já þetta hefur gengið vonum framar og við sjáum fyrir líka að það verði fullt að gera væntanlega í sumar þegar fólk fer að huga að pöllum og öðru slíku. Fólk er ekki að fara til útlanda og eyða peningum í utanlandsferðir og reynir þá að gera betur við sig heima. Laga húsnæði og fara í endurbætur og
Út: og auka virði eigna sinna,“ segir Hilmar. 

Vilja framlengja úrræðið 

Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum voru rúmlega tólf milljarðar endurgreiddir vegna vinnu sem framkvæmd var frá mars 2020 til áramóta. Meðal annars vegna endurbóta og viðhalds á íbúðarhúsnæði, nýbygginga og bílaviðgerða. Úrræðið gildir út þetta ár.

„Við hvetjum bara til þess að framlengja þetta átak um ár í viðbót. Það er að sýna sig að fólk er að taka við sér og láta laga húsnæði. Svo höfum við nú verið að benda á að í þessum skjálftagangi núna þá sé einmitt not fyrir okkur að fá ráðleggingar að festa húsbúnað og annað sem getur færst til á heimilum,“ segir Hilmar Harðarson. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV