Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rafmagn fór af stóru svæði á Suðurlandi

05.03.2021 - 22:41
B
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Rafmagn fór af stóru svæði á Suðurlandi upp úr klukkan tíu í kvöld. Fréttastofa fékk símtöl frá fólki á Selfossi og Stokkseyri sem sat allt í einu í myrkum og hljóðlátum húsum og hefur heyrt af fólki í rafmagnslausum sumarbústöðum í Grímsnesi. Þá mun hafa orðið rafmagnslaust á Skeiðum og í Flóa. Rafmagni var þó komið á eftir varaleiðum fyrir klukkan ellefu.

Samkvæmt fyrstu upplýsingum frá HS veitum duttu út spennar bæði hjá þeim og Rarik. Ekki er vitað hvað olli biluninni en leitar- og viðgerðaflokkur frá Landsneti er farinn á vettvang til að kanna málið. Samkvæmt upplýsingum klukkan 22:49 var allavega sá hluti sem HS veitur eru með kominn aftur í samband. Hjá Rarik fengust þær upplýsingar að rafmagnsleysið væri mjög útbreitt en að vonandi tækist að koma því inn fljótlega. Um ellefu fengust þær upplýsingar að rafmagn væri komið á hjá Rarik líka, það fer eftir varaleiðum. Landsnet á eftir að ganga úr skugga um hvað olli rafmagnsleysinu og tryggja að öruggt sé að hleypa rafmagni aftur á í gegnum línuna Selfoss 1.

Þetta er annað útbreidda rafmagnsleysi dagsins. Klukkan tvö fór rafmagn af Grindavík. Búið er að koma rafmagni á stærstan hluta bæjarins en ekki allan.

Fréttin var uppfærð 23:03.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV