Frans páfi við brottförina í morgun. Mynd: EPA-EFE - VATICAN MEDIA
Frans páfi lagði í morgun af stað í þriggja daga heimsókn til Íraks sem er söguleg í ýmsum skilningi. Þetta er í fyrsta skipti sem páfi heimsækir Írak og er jafnframt fyrsta utanlandsför páfa síðan kórónuveirufaraldurinn hófst.
Hafin er önnur bylgja kórónuveirufaraldursins í Írak og hafa að undanförnu um fimm þúsund daglega greinst með smit þar í landi. Páfi lætur það ekki hindra sig, en hann hefur verið bólusettur við kórónuveirunni.
Frans páfi mun koma víða við í þriggja daga dvöl sinni í Írak, ferðast landshorna á milli með flugvélum og þyrlum til að hitta fólk úr kristnum söfnuðum landsins. Hann ætlar einnig að ræða við æðsta leiðtoga síta í Írak, Ali Sistani erkiklerk.