Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýtt varðskip verði fyrst til að bera nafn ásynju

05.03.2021 - 18:57
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Nýtt varðskip verður keypt í flota Landhelgisgæslunnar. Gert er ráð fyrir að verja milljarði eða meira til kaupa á notuðu skipi frá nágrannalandi. Dómsmálaráðherra stingur upp á að það skip verði fyrsta íslenska varðskipið til að verða nefnt eftir ásynju. 

Dómsmálaráðherra blés til blaðamannafundar um borð í varðskipinu Þór í dag til að greina frá því að nýtt varðskip verði keypt í flotann í stað Týs.

Varðskipið Týr er komið til ára sinna, 46 ára gamalt. Í janúar kom í ljós að skipið þurfti á umfangsmiklum viðgerðum að halda. Týr tók þátt í þorskastríðinu og lenti í miklum átökum við breska freygátu.

Svona lýsti Ómar Ragnarsson átökunum í fréttum RÚV í maí 1976:

Skipherra freygátunnar Falmouth virtist missa stjórn á sér þar sem hann átti í höggi við Tý út af Berufirði. Fyrst sigldi hann fram með Tý og sló í hann skutnum en síðar sigldi Falmouth á fullri ferð á bakborðshlið Týs og hafði þá nær hvolft varðskipinu sem snerist í hálfhring og komst við það í færi til að klippa aftan úr togaranum. Sigldi skipherra Falmouth þá í bræði sinni í þriðja sinn á Tý og keyrði vélarnar áfram eftir að Týr hafði lagst á hliðina.

En núna er Týr að syngja sitt síðasta og því á að kaupa annað skip sem verður komið í notkun í haust þegar Þór fer í slipp.

„Við gerum ráð fyrir því að það kosti einn til einn og hálfan milljarða króna að kaupa tiltölulega nýtt skip frá nágrannalöndum okkar sem er eins búið og Þór og fullfært í að sinna þessum mikilvægu störfum Landhelgisgæslunnar,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

En getur Landhelgisgæslan sinnt sínu almannavarnahlutverki, meðal annars í jarðhræringunum, með Tý bilaðan?

„Það er afar erfitt að vera bara með eitt skip í rekstri og nánast óhugsandi ef  hugsað er til öryggis þeirra sem um sjóinn fara,“ segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. Hann vonast til þess að unnt verði að lappa upp á Tý svo hann geti tórað fram á haust.

Í gær hafði danski herinn samband við Landhelgisgæsluna og bauð fram aðstoð ef á þyrfti að halda. Hingað til hafa flest varðskipin verið nefnd karlkynsnöfnum eftir ásum.

„Ég kom með eina tillögu í dag að það skildi bera nafnið freyja, rétta hlut þeirra hér og það væri flott við hlið Þórs að standa vörð um þjóðina,“ segir Áslaug Arna.