Miklu hræddari við aðra þingmenn en jarðskjálfta

Mynd: RÚV / Skjáskot

Miklu hræddari við aðra þingmenn en jarðskjálfta

05.03.2021 - 09:02

Höfundar

Að mörgu þarf að huga í miðri jarðskjálftahrinu og jarðhræringum. Margir hugsa til húsdýranna sem hræðast þessi óvæntu læti en aðrir hugsa til Brynjars Níelssonar alþingismanns sem er þekktur fyrir að bregða af minnsta tilefni.

Brynjari bregður oft með miklum tilþrifum. Hann hefur þó haldið ró sinni í skjálftahrinunni síðustu daga. „Lyfin eru orðin það góð og læknisþjónusta öll. Ég hef miklu meiri áhyggju af Helga Hrafni en mér, sem er búinn að hlaupa stanslaust í hálfan mánuð,” segir Brynjar.

Ekki er langt síðan myndband, sem sýndi þegar Brynjari krossbrá við að brauð skaust upp úr brauðrist, sló í gegn. Hann segist hafa leyst það vandamál. „Það er búið að kaupa nýja ristavél þar sem brauðið kemur hægt upp. Menn bregðast við vandanum,” segir Brynjar.

Brynjar þakkar einnig fyrir að vera óvenju næmur þegar kemur að jarðskjálftum og segist finna smá hristing áður en stóra höggið kemur. Annars myndi hann falla til jarðar við hvern skjálfta. Hann er því að mörgu leyti eins og dýrin þegar kemur að því að spá fyrir um skjálfta. „Þeir segja að ég sé með álíka stóran heila og dýrin,” segir Brynjar. Næmni Brynjars hefur leitt til þess að aðrir þingmenn fylgjast með honum til að fá merki um yfirvofandi skjálfta. Fær Brynjar klapp að launum, rétt eins og dýrin, að eigin sögn. 

Sjálfur segist Brynjar ekki hræðast jarðskjálfta og vera miklu hræddari við vini sína á Alþingi sem margir séu taugaveiklaðir um þessar mundir, ekki vegna jarðhræringanna þó heldur kosninganna sem eru framundan. „Það eru allir orðnir taugaveiklaðir. Það er að koma að prófkjörum og kosningum. Þá missa menn það litla vit sem eftir er,” segir Brynjar.

Fólk verður mismikið vart við jarðskjálftana eftir því hvar það er statt í borginni og Brynjar segist finna mun meira fyrir skjálftunum í Alþingishúsinu og á skrifstofum þingsins en heima hjá sér í Hlíðunum. 

Rætt var við Brynjar Níelsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær.