Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hvetur nauðgara til að kvænast barnungum brotaþola

05.03.2021 - 04:18
epa08714911 Indian women from various organizations hold anti-rape placards during a protest against an alleged gang rape of a 19 years old Dalit girl in Uttar Pradesh state; in New Delhi, India, 02 October 2020. Hundreds of women and activists from the Commission on the Status of Women (CSW) participated in the protest after a 19 year old Dalit girl was allegedly gang raped and tortured in Hathras in Uttar Pradesh state two weeks ago. She succumbed to injuries in Safdarjung Hospital in New Delhi on 29 September.  EPA-EFE/HARISH TYAGI
Konur úr nokkrum indverskum kvennasamtökum mótmæla hópnauðgun 19 ára stúlku og útbreiddri nauðgunarómenningu í landinu.  Mynd: epa
Undirskriftasöfnun er hafin á Indlandi þar sem kallað er eftir afsögn forseta hæstaréttar, eftir að hann ráðlagði manni sem ákærður er fyrir nauðgun, að kvænast þolandanum, stúlku á skólaaldri, til að forða sér frá fangelsisdómi. „Ef þú vilt giftast [henni], þá getum við hjálpað þér,“ sagði dómarinn, Sharad Arvind Bobde, við sakborninginn þegar réttað var yfir honum. „Ef ekki, þá missirðu vinnuna og ferð í fangelsi.“

Þessi ummæli æðsta dómara Indlands vöktu mikla reiði og baráttusamtök fyrir kvenréttindum birtu opið bréf, undirritað af þúsundum kvenna, þar sem kallað er eftir afsögn hans.

Reynir í raun að dæma þolanda nauðgunar til að búa við nauðganir til æviloka

Í bréfinu kemur fram að hinn ákærði sé sakaður um að hafa elt stúlkuna á röndum, bundið hana og keflað, nauðgað henni ítrekað og hótað að hella yfir hana bensíni, kveikja í henni og láta myrða bróður hennar. „Með því að leggja til að þessi nauðgari kvænist þolanda glæps síns reyndir þú, forseti hæstaréttar Indlands, að dæma þolanda glæpsins til að búa við nauðganir kvalara síns til æviloka, manns sem knúði hana til að reyna að svipta sig lífi,“ segir í bréfinu.

Kynferðisofbeldi og kvenhatur landlægt vandamál

Kynferðisofbeldi er viðvarandi og landlægt vandamál á Indlandi og það eru afstaða og vinnubrögð lögreglu og dómstóla í kynferðsibrotamálum líka. Í frétt breska blaðsins Guardian af máli dómarans Bobde kemur fram að fulltrúar þessara valdastofnana mæti brotaþolum iðulega með kvenfjandsamlegu viðmóti og hvetji þær ósjaldan til að giftast nauðgurum sínum frekar en að halda ákærum til streitu.

Véfengir að til sé nokkuð sem heitir nauðgun innan hjónabands

Í bréfi kvenréttindakvennanna er líka vakin athygli á öðru máli þar sem Bobda sat í dómarasætinu á mánudag. Þar mun þessi æðsti handhafi dómsvaldsins á Indlandi ítrekað hafa dregið það í efa, að mök manns við eiginkonu sína geti nokkru sinni flokkast sem nauðgun. „Eiginmaðurinn getur verið ofbeldisfullur ruddi, en er hægt að kalla kynlíf giftra hjóna nauðgun?“ spurði Bobda.

Sjá líka: Nauðganir á Indlandi

„Þessi ummæli gera ekki aðeins að réttlæta hvers kyns kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi eiginmanna, heldur normalíserar það líka þær misþyrmingar sem indverskar konur hafa mátt þola í hjónabandi árum saman án nokkurra lagalegra úrræða,“ segir í bréfinu.

Nauðgun eiginmanns á eiginkonu sinni er ekki refsiverð, samkvæmt indverskum lögum.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV