Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hvað er eldgos og hvað kemur hafragrautur málinu við?

05.03.2021 - 12:57
Mynd: Einar Rafnsson / RÚV
Eldgos er heitasta umræðuefnið á Íslandi í dag. Miklar jarðhræringar hafa verið á Reykjanesskaga undanfarna daga og þegar þessi orð eru skrifuð eru tvær sviðsmyndir líklegastar: Annað hvort kemur eldgos eða ekki. 

Eldgos voru örskýrð í Hádeginu á Rás 1. Hlustaðu á örskýringuna í spilaranum hér fyrir ofan.

Hvað er eldgos, eru þau hræðileg að öllu leyti og hvers vegna gjósa eldfjöll? Við skoðum málið í þessari örskýringu og aldrei þessu vant ætlum við að kafa djúpt, nánar tiltekið ofan í 5.000 gráðu heitan kjarna jarðar.

Jörðin er mjög heit að innan þrátt fyrir að hafa kólnað stöðugt frá því að hún myndaðist. Hitinn leitar stöðugt út úr jörðinni, ýmist löturhægt í gegnum jarðskorpuna eða miklu, miklu hraðar með því að sprauta sjóðandi heitri kviku út úr eldfjöllum. Og já, þau sem hlustuðu á örskýringuna í síðustu viku um jarðskjálfta vita að jarðskorpan er ysta lag jarðarinnar. 

Þegar kvikan kemst upp á yfirborðið verður eldgos. Í bókinni Af hverju gjósa fjöll? er þessu líkt við að elda hafragraut; skömmu eftir að kveikt er undir pottinum byrjar vatnið og haframjölið að hreyfast í litlum strókum upp á við vegna hitans. Þið getið skoðað þetta betur í fyrramálið.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir í umfjöllun á Vísindavefnum að þrátt fyrir að eldgos geti verið ógnvænleg og valdi oft tjóni á mannvirkjum og stundum dauðsföllum séu þau skýrustu merki þess að plánetan okkar sé við góða heilsu. 

Hann líkir eldgosi við það að fara á æfingu. Við áreynslu hitnar líkaminn meira en húðin (í þessu dæmi jarðskorpan) getur losað sig við. Þess vegna framleiðir líkaminn svita (sem er kvikan) og dælir honum út úr sér til að kæla sig (eins og eldgos).

Óróapúls verður örugglega eitt af orðum ársins en hvað þýðir það?

Talað er um óróapúls þegar mikill fjöldi lítilla jarðskjálfta verður með stuttu millibili. Óróapúls getur til dæmis átt sér stað þegar sjóðandi heit kvika þrýstir sér í gegnum jarðskorpuna. Það er því eðlilegt að reiknað sé með að eldgos sé að hefjast þegar óróapúls mælist.

En ef það yrði eldgos, erum við að fara að stöðva flugumferð í Evrópu aftur?

Jarðeðlisfræðingurinn Freysteinn Sigmundsson segir í frétt breska blaðsins The Guardian að eldgos á þessu svæði yrði svokallað hraungos en ekki sprengigos, eins og varð í Eyjafjallajökli árið 2010 og lagði flugumferð í Evrópu á hliðina. Það er því ólíklegt að eldgos á þessu svæði myndi kalla yfir okkur reiði flugfarþega, eins og þegar Skotinn Anton McEneny truflaði viðtal á Sky News og lýsti yfir með tilþrifum að hann hataði Ísland, eftir að hætt var við flug hans til Prag. 

Munurinn á hraungosi og sprengigosi snýst aðallega um hversu hratt kvikan sjálf stígur upp en líka hversu gasrík hún er. Einfaldasta leiðin til að útskýra muninn er að opna gosflösku, hrista hana svo og opna hana aftur. Óhrista flaskan er þá hraungosið og sú hrista er sprengigosið. 

Eldgos eru sem sagt eðlileg og pínu eins og hafragrautur. En hvað gerist næst?

Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur og sérfræðingur um eldgos, sagði í Hádeginu á hér á Rás 1 í gær afar ólíklegt að eldgos væri að hefjast.

Hann sagðist þó ekki geta útilokað það og sannaði þar með kenninguna um að jarðfræðingar séu bara stjórnmálafræðingar í gönguskóm og regngalla.