Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Flygillinn í Hörpu of gamall fyrir einleikstónleika

Mynd:  / 

Flygillinn í Hörpu of gamall fyrir einleikstónleika

05.03.2021 - 10:05

Höfundar

Tónleikar með Víkingi Heiðari Ólafssyni verða ekki mikið fleiri í Hörpu ef ekki verður keyptur nýr flygill í tónlistarhúsið. Píanistinn segir að hljóðfærið sé komið á aldur og beri ekki einleikstónleika lengur. „Tæknibúnaðurinn er endurnýjaður, ljósin eru endurnýjuð, allt er endurnýjað en flygillinn á bara að vera þarna í 40 ár. Það er náttúrulega bara fáránlegt.“

Það þarf að forgangsraða tónlistinni í Hörpu, segir Víkingur Heiðar Ólafsson sem kemur þar fram á fernum einleikstónleikum næstu daga. Tónleikarnir verða ekki mikið fleiri eftir það ef það verður ekki keyptur nýr flygill fyrir tónlistarhúsið fljótlega, segir hann í viðtali í Segðu mér á Rás 1.

„Líftími svona flygils er um tíu ár í svona húsi. Svo verða þeir ekki lengur einleiksflyglar, þá verða þeir meira kammerhljóðfæri og missa tóna og svo framvegis. Það er alveg kominn tími á þetta.“

Víkingur hvetur ríkisstjórn Íslands og Reykjavíkurborg til að fjármagna kaup á nýjum flygli fyrir tónlistarhúsið. „Þið verðið að gera þetta því annars get ég ekki tekið meira upp og gert mikið meira í Hörpu,“ segir hann. „Ég veit að Svanhildur [Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu] er með mér í þessu en við þurfum stuðning með þetta. Ég mun ná því fyrir þessa tónleika en ekki marga í viðbót með þennan flygil sem er þarna.“

Hann segir að á sama tíma og tækjabúnaður hafi verið endurnýjaður hafi gleymst að skipta þarf út flyglum þegar þeir eru komnir af sínu léttasta skeiði.

„Á Íslandi er maður alltaf að djöflast og gera allt til að eitthvað gerist, þannig að ég ætla að djöflast í því að reyna að finna einhverja til að gera þetta ef þetta verður ekki gert af því opinbera. Mér finnst að Reykjavíkurborg og ríkisstjórn Íslands eigi bara að gefa Hörpu þetta í tíu ára afmælisgjöf.“

Víkingur segir að kostnaðurinn sé ekki mikill í hinu stóra samhengi ríkisfjármála. „Auðvitað er þetta mikið fyrir mig og þig, um 25 milljónir, en það er ekkert mikið yfir tíu ár miðað við hvernig þessi flygill er nýttur.“

Tengdar fréttir

Tónlist

„Þetta var ólíkt öllu sem ég hafði áður heyrt“

Tónlist

Kveikjan var drungalegt tónverk eftir morðingja

Innlent

Þarf að vera einn á hótelherbergi í Tókýó um jólin

Klassísk tónlist

Líður ekki endilega vel þegar maður spilar Beethoven