Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flóðbylgjuviðvörun eftir skjálfta af stærðinni 8.1

05.03.2021 - 00:44
Mynd með færslu
 Mynd: USGS
Tugir þúsunda flúðu heimili sín á Nýju Kaledóníu, Vanúatú og strandhéruðum Nýja Sjálands vegna hættu á flóðbylgjum í kjölfar öflugs jarðskjálfta árla föstudagsmorguns þar eystra, eða klukkan hálfátta í kvöld að íslenskum tíma. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út vegna skjálftans, sem var 8,1 að stærð og átti upptök sín við Kermanec-eyjar, norðaustur af Nýja Sjálandi. Þetta var þriðji stóri skjálftinn á þessum slóðum í dag, hinir tveir sem á undan fóru mældust 7,3 og 7,4 að stærð.

Viðvörunarflautur glumdu á ströndinni við Nouméa, höfuðborg Nýju Kaledóníu, og í útvarpinu brýndi talsmaður almannavarna alla til að forða sér frá ströndinni hið snarasta en fara ekki að sækja börnin sín í skólann í einhverju óðagoti, til að forðast umferðarteppu. Á norðausturströnd Nýja Sjálands voru íbúar hvattir til að forða sér og sínum í öruggt skjól eins langt inni í landi og mögulegt væri. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV