Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ekki standa til að slaka á sóttvarnareglum án tilmæla frá Þórólfi. „Það hefur ekki verið leiðin sem við höfum farið hér. Við sóttvarnalæknir höfum reynt að vera í þéttu sambandi varðandi ákvarðanir og það hefur verið gæfuspor fyrir okkur. Það er þess vegna sem við erum stödd þar sem við erum stödd vegna þess að samfélagið hefur verið tilbúið að snúa bökum saman og Þórólfur hefur verið góður leiðarvísir í ákvörðunum. Þannig að ég held áfram að vera í þéttu sambandi við hann með næstu skref,“ segir Svandís.
Þegar hún er spurð hvort hún sé sammála Þórólfi um að það sé óráðlegt að slaka á takmörkunum í miðri skjálftavirkni segir hún að fyrirsjáanleikinn í jarðhræringunum sé svipaður og í kórónuveirufaraldrinum.
Hún segist ekki vera með í smíðum nýja reglugerð um sóttvarnir.