Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bogi telur eðlilegt að farþegar séu hikandi í garð MAX

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Tvær Boeing 737 MAX þotur Icelandair verða teknar í notkun nú í mars. Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir enga ástæðu til að vantreysta vélunum.

Ætlunin er að fljúga þotu Icelandair sem ber heitið Mývatn til Kaupmannahafnar 8. mars næstkomandi og búist við að Búlandstindur verði tekinn í notkun innan skamms. 

Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að þeim sem vilji ferðast með öðrum vélum verður fyrst um sinn gefinn kostur á að breyta bókun sinni, sér að kostnaðarlausu. 

„Það er alveg eðlilegt í ljósi þess sem kom fyrir, að eitthvað hik yrði á einhverjum viðskiptavinum,“ segir Bogi Nils Bogason í samtali við fréttastofu. Gert hafi verið ráð fyrir slíkum viðbrögðum.   

MAX-þotur Icelandair voru í geymslu á Spáni en var flogið hingað til lands um miðjan febrúar. Nú vinna flugvirkjar Icelandair að því að uppfæra vélarnar í samræmi við þær kröfur sem flugmálayfirvöld gera til þeirra.

Jafnframt eru flugmenn í þjálfun, bóklegri og í flughermi, í þjálfunarsetri félagsins í Hafnarfirði. Icelandair er eitt fárra flugfélaga í heiminum sem á sérstakan Boeing 737 MAX flughermi.

Að svo búnu fara þoturnar í reynsluflug án farþega áður en þær verða formlega teknar í notkun. Bogi segir enga ástæðu til vantraust gagnvart þotunum enda öryggisbúnaður þeirra uppfærður í samræmi við kröfur flugmálayfirvalda. 

„Nú er búið að aflétta kyrrsetningunni. Það hefði aldrei verið gert nema vélarnar væru taldar mjög traustar,“ segir Bogi. Vélarnar hafi farið í gegnum mjög yfirgripsmikið ferli.

„Gerðar voru breytingar á ákveðnum búnaði. Flugmálayfirvöld og flugmálayfirvöld telja þetta mjög traustar vélar og það gerum við líka.“ 

Kyrrsetningu MAX vélanna hefur verið aflétt í Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu en öryggisbúnaður þeirra hefur verið uppfærður í samræmi við kröfur flugmálayfirvalda. Auknar kröfur eru einnig gerðar til þjálfunar flugmanna.